Tillaga Vigdísar Hauksdóttur felld

24.05.2012 - 12:48
Mynd með færslu
 Mynd:
Forsætisráðherra segir það sögulega stund þegar þingmenn greiða atkvæði um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögu stjórnlagaráðs um stjórnarskrána. Tillaga Vigdísar Hauksdóttur um að spurt verði hvort draga eigi umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu til baka var felld.

34 voru á móti en 25 fylgjandi og  4 voru fjarverandi við atkvæðagreiðsluna.  

Áður en atkvæðagreiðslan var haldin héldu rúmlega 20 þingmenn stuttar ræður um sjálfa atkvæðagreiðsluna. 

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði þjóðaratkvæðagreiðsluna um stjórnarskrána sem um væri fjallað sögulega og gríðarlega mikilvægan  þátt í því lýðræðislega ferli sem mótun  nýrrar stjórnarskrár hefði verið allt frá hruni.  Jóhanna er ekki með atkvæðisrétt hér á Alþingi í dag þar sem Baldur Þórhallsson er varamaður hennar. 

Í umræðum um tillögu Vigdísar um ESB-aðildarviðræðurnar sagði Magnús Orri Schram þingflokksformaður Samfylkingar ð þingmenn ættu ekki að vera hræddir við vilja  þjóðarinnar þegar hún tæki upplýsta ákvörðun um ESB og því ætti að legga tilbúinn samning í dóm hennar en ekki viðræðuferlið. 

Ragnheiður Elín Árnadóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins benti á að kjósa mætti um stjórnarskrána í miðjum klíðum en því fannst henni skjóta skökku við að ekki mæti kjósa um aðildarviðræður við ESB í miðjum klíðum.

Jón Bjarnason, þingmaður VG telur einboðið að þjóðin kjósi um aðildarviðræðurnar rétt eins og stjórnarskrána. Nú sé einmitt rétti tíminn og það sé í raun frumburðarréttur þjóðarinnar að fá að koma að aðildarviðræðum um ESB og sagði því já. 

 Þeir sem voru andvígir þessari tillögu hafa kallað hana laumufarþega og senuþjóf í umræðunni, en svo fór að hún var felld.