Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Tillaga um vantraust felld

11.03.2013 - 15:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Alþingi felldi í dag tillögu Þórs Saari um vantraust á ríkisstjórnina. 32 þingmenn greiddu atkvæði gegn tillögunni en 29 greiddu atkvæði með henni. Einn þingmaður, Atli Gíslason, var fjarverandi og greiddi því ekki atkvæði, og Jón Bjarnason sat hjá.

Aðeins voru greidd atkvæði um fyrri lið vantrauststillögunnar. Sá liður sneri að vantrausti á ríkisstjórnina. Þegar sú tillaga var felld varð ljóst að ekki þyrfti að greiða atkvæði um seinni hluta tillögunnar, um þingslit og myndun starfsstjórnar með fulltrúum allra flokka fram yfir kosningar.

Allir þrjátíu þingmenn stjórnarflokkanna greiddu atkvæði gegn vantrauststillögunni. Það gerðu líka þingmenn Bjartrar framtíðar. Allir þingmenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Hreyfingarinnar greiddu atkvæði með vantrauststillögunni. Það gerði einnig Lilja Mósesdóttir, þingmaður utan flokka. Jón Bjarnason sat hjá og Atli Gíslason var með fjarvistarleyfi, sem fyrr segir.

 

Fimm tíma umræður og atkvæðagreiðsla

33 þingmenn tóku til máls í umræðu um vantrauststillöguna sem tók rúmar fjórar klukkustundir. Atkvæðagreiðsla tók næstum klukkustund til viðbótar og tóku átján þingmenn þá til umræðu. Ellefu tóku til máls um atkvæðagreiðsluna. Þeirra á meðal voru Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sem furðaði sig á tillögunni og Þór Saari, Hreyfingunni, sem ítrekaði að þjóðarvilji væri hunsaður með því að klára ekki stjórnarskrárbreytingar í samræmi við þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögurnar.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, sagði að málið snerist einfaldlega um fyrri lið tillögunnar, hvort ríkisstjórnin nyti trausts í þinginu, ekki um seinni liðinn um þingslit og starfsstjórn. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks, tók undir það og sagði aðeins kosið um traust til ríkisstjórnarinnar en hvorki um þingrof eða starfsstjórn.

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra sagðist líta svo á að með því að fella tillögu um vantraust á ríkisstjórnina væri stutt við áframhald þeirrar vinnu að breyta stjórnarskránni, samþykkt tillögunnar yrði hins vegar til að binda enda á stjórnarskrármálið. Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, sagði sinn flokk vilja tryggja að hægt væri að halda málinu áfram á næsta kjörtímabili og ljúka með þjóðaratkvæðagreiðslu á næsta kjörtímabili, þess vegna hlyti hann að segja nei við vantrauststillögunni.

 

Vonaði að já sitt felli ekki ríkisstjórnina

„Ég vona að þetta já mitt verði ekki til að fella ríkisstjórnina," sagði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, og kvaðst ekki vilja stöðva stjórnarskrárferlið. Hún sagðist segja já „því ég treysti ykkur ekki“.

 

Ábyrgðarlaus vantrauststillaga

Jón Bjarnason, sem sagði sig úr þingflokki Vinstri-grænna undir lok janúar, sagði ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur vera ríkisstjórn brostinna vona. Hann sagði ríkisstjórnina ekki vera að sínu skapi. Vantrauststillagan væri hins vegar óábyrg og því sagðist hann ekki greiða atkvæði.