Tillaga um stjórnarskrá felld

Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Dagskrártillaga þingmanna Pírata og Samfylkingar var felld með 41 atkvæði gegn 13 við upphaf þingfundar eftir hádegi. Tillagan gekk út á að til viðbótar fyrirhugaðri dagskrá yrði einnig tekið fyrir frumvarp Pírata um að stjórnarskrárbreytingar verði bornar undir þjóðina. Fimm sátu hjá og fjórir voru fjarverandi.

Svandís Svavarsdóttir þingflokksformaður Vinstri grænna sagði að sennilega væru flestir í þingsal sammála breytingum á stjórnarskrá en þó ekki á hlaupum. Framtíðin yrði á dagskrá í kosningum 28. október næstkomandi. 

Allir þingmenn Pírata og Samfylkingar greiddu tillögunni atkvæði sitt.  Allir viðstaddir þingmenn Bjartrar framtíðar, Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og  Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs sem voru viðstaddir atkvæðagreiðsluna greiddu atkvæði gegn tillögunni. 

Fimm þingmenn Viðreisnar sátu hjá.  Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður flokksins, greiddi atkvæði gegn tillögunni. 

Brynjar Níelsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir voru fjarverandi atkvæðagreiðsluna. 

 

 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi