Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tillaga um frí bílastæði borgarfulltrúa felld

13.10.2018 - 06:49
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Tillaga Kolbrúnar Baldursdóttur, áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í forsætisnefnd borgarstjórnar, um ókeypis bílastæði fyrir borgarfulltrúa var felld í gær. Vísað var til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar þar sem segir að ef forsætisnefnd tekur undir tillöguna að einhverju eða öllu leyti verði að vísa henni til frekari vinnslu við gerð fjárhagsáætlunar svo gera megi ráð fyrir auknum fjárheimildum vegna kostnaðarins.

Í bókun forsætisnefndar og áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna segir að litið sé á að greiðsla fyrir starfskostnað eigi að duga fyrir mögulegum bílastæðakostnaði. Fyrir heilan mánuð er sá kostnaður vel undir þeim rúmlega 52 þúsund krónum sem greiðsla fyrir starfskostnað borgarfulltrúa er. Þá segir í bókuninni að það myndi teljast einkennilegt ef borgarstjórn tryggði sér ókeypis bílastæði á sama tíma og verið væri að hækka bílastæðagjöld á almenna borgarbúa eins og stefnt er að.

Kolbrún lagði á móti fram bókun á fundi forsætisnefndar þar sem hún minnti á margs konar óráðsíu í fjármálum borgarinnar. Til dæmis væri hægt að henda fé í alls kyns hégómleg verkefni, en þegar kæmi að gjaldfrjálsum bílastæðum fyrir borgarfulltrúa væri ekki til fjármagn. Hún benti á að starfskostnaðargreiðslur, sem notaðar væru sem rök til að fella tillöguna, væru þær sömu fyrir alla borgarfulltrúa óháð hvað þeir búi í borginni. Þykir henni óréttlátt að sömu greiðslur séu til þeirra sem búi í efri byggðum og þeirra sem búi í miðbæ eða vesturbæ. Það sé kostnaðarsamt að koma langt að í vinnu og greiða svo allt að 1500 krónur fyrir langan vinnudag.

Á vef Bílastæðasjóðs Reykjavíkur er hægt að finna upplýsingar um kostnað við að leggja í stæði borgarinnar. Í Ráðhúsinu er hægt að fá mánaðarkort fyrir 13.500 krónur, sem gerir að jafnaði um 450 krónur á dag. Langur biðlisti er þó eftir slíkum kortum. Venjulega kostar fyrsta klukkustundin 200 krónur og hver klukkustund eftir það 120 krónur. Þá myndi kosta 1.400 krónur að leggja þar í 11 klukkustundir til að mynda. Í bílakjallaranum við Höfðatorg, þar sem hluti af skrifstofum borgarinnar er einnig, kostar klukkustundin 170 krónur frá átta á morgnana til fjögur virka daga, eða alls 1360 krónur ef lagt er allan daginn.

Í umsögn frá skrifstofu borgarstjórnar vegna tillögu Kolbrúnar segir að kostnaður vegna bílastæðakorta fyrir fulltrúana 23 yrði nærri þrjár milljónir í það minnsta. Hluti borgarfulltrúa var áður með niðurgreidd bílastæðakort í kjallara Ráðhússins, en í apríl 2016 var því hætt í hagræðingaraðgerðum borgarstjórnar.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV