Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tilkynningum um kynferðisofbeldi fjölgar mikið

02.05.2019 - 19:10
Bandarískir kvenhermenn
 Mynd: Bandaríski herinn
Þrátt fyrir umfangsmiklar aðgerðir til að stemma stigu við kynferðisofbeldi innan bandaríska hersins hefur tilkynningum um slíkt fjölgað gríðarlega. Flestir þolendur voru konur á aldrinum 17-24 ára.

Könnunin tók til bandaríska hersins; sjóhersins, flughersins og fótgönguliða. 

Samkvæmt henni komu í fyrra upp rúmlega 20 þúsund tilvik þar sem grunur var um kynferðisofbeldi, rúmlega fimm þúsund fleiri en tveimur árum áður. Það er aukning um 38%. Einungis eitt af hverjum þremur slíkum málum var tilkynnt til yfirvalda. Áfengi kom við sögu í þriðjungi málanna og flestir þolendur voru konur á aldrinum 17-24 ára.

Í yfir 85% tilfella þekktu þolendur til geranda og í flestum þeirra var gerandi hærra settur en þolandinn.

Yfirmenn í hernum segja niðurstöðurnar grafalvarlegt mál samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Nauðsynlegt sé að grípa strax til aðgerða til að stemma stigu við vandanum, einkum fyrir konur á aldrinum 17-24 ára. Formaður hermálanefndar fulltrúadeildar bandaríska þingsins segir ljóst að núverandi aðgerðir hersins til að draga úr kynferðisofbeldi dugi skammt. Þingið verði að beita herinn þrýstingi til að vinna bug á þessari vá.

Starfandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Patrick Shanahan, hefur í hyggju að gera kynferðisofbeldi innan hersins saknæmt en hingað til hefur ekki verið mögulegt að sækja hermenn til saka fyrir kynferðisbrot eingöngu.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV