Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tilkynningar leiða sjaldan til kæru eða sektar

23.08.2018 - 18:40
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Minnst 74 tilkynningar um akstur utan vega bárust lögreglu í fyrra, samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun. Langminnstur hluti málanna endaði Fæst málin enduðu með kæru eða sekt. Sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun segir áhrif utanvegaaksturs alltaf neikvæð.

„Ef maður horfir á þetta út frá forsendum náttúruverndar þá er akstur utan vega alltaf neikvæður. Áhrifin eru reyndar mismundandi eftir því í hvernig landslagi er ekið eða undirlagi,“ segir Jón Smári Jónsson, sérfræðingur á náttúrusviði Umhverfisstofnunar.

„Eins og við höfum verið að sjá undanfarið á þessum sendnu svæðum þá eru áhrifin oftast fólgin í því að hjólbarðarnir eru að ýta því grófa efni sem er á yfirborðinu til hliðar, og ef jarðvegurinn er gljúpur að þá myndar þetta spor sem að fína efnið sem er í umhverfinu safnast ofan í með tímanum. Þannig að ef ekki er gripið til aðgerða - í formi þess að landverðir afmá þessi ummerki - þá getur sýnileiki þeirra verið ansi langur,“ segir Jón Smári.

Áhrifin séu alvarlegri á grónum svæðum. „Þegar þetta eru gróin svæði eins og við sáum uppi í Kerlingarfjöllum, aksturinn þar undir Loðmundi, það svæði getur tekið áratugi að jafna sig.“

74 mál til lögreglu

Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun bárust lögreglu minnst 74 tilkynningar um akstur utan vega í fyrra. Jón Smári segir þetta áhyggjuefni.

Einungis litlum hluta málanna lauk með kæru eða sekt. Lögregla hefur heimild til að leggja á sektir, allt að hálfri milljón króna, eftir því hversu brotið er alvarlegt. „Við höfum stórar áhyggjur af þessu og höfum unnið að þessu í gegnum tíðina að reyna að sporna við þessu í formi þess að fræða bæði almenning og þá sem sækja landið heim um hvernig þú átt að haga þér í náttúrunni.“