Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Tildrög slyssins á Árskógssandi enn á huldu

06.11.2017 - 16:27
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV
Tildrög banaslyssins á Árskógssandi á föstudag, þar sem fjölskylda lést þegar bíll fór í sjóinn, eru enn á huldu. Fjöldi fólks varð vitni að slysinu. Kafarar náðu fólkinu úr bílnum rúmri klukkustund eftir að fyrsta tilkynning barst. Aðstæður á vettvangi voru afar erfiðar. 

Pólskt par, maður og kona á fertugsaldri, og fimm ára dóttir þeirra, létust þegar jepplingur þeirra hafnaði í sjónum í höfninni á Árskógssandi klukkan hálf sex á föstudag. Fólkið hafði búið í Hrísey í nokkur ár og var á leið í bátinn til að fara heim til sín. Tveggja ára dóttir þeirra var í pössun í eynni hjá ættingjum, sem búa í Hrísey. Fjöldi fólks varð vitni að atvikinu; níu farþegar voru í bátnum, sem var að undirbúa brottför, ásamt áhöfn. 

Beðið eftir niðurstöðum úr bíltæknirannsókn og krufningu

Jóhannes Sigfússon, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, segir rannsókn lögreglu enn í fullum gangi. 

„Við erum að rannsaka ökutækið sem fór þarna í sjóinn. Og krufning hefur ekki farið fram á þeim aðilum sem voru þarna,” segir hann. „Og rannsókn á vettvangi er ekki að fullu lokið, þannig að við eigum eftir að fá niðurstöðu í ýmsum þáttum. Og erum ekki komnir á þann stað að við getum upplýst um ástæður þess að svona fór.”

Var ekki á óeðlilegum hraða miðað við aðstæður

Samkvæmt sjónarvottum keyrði bíllinn meðfram bryggjunni, ekki á óeðlilegum hraða miðað við aðstæður. Hann keyrði framhjá landganginum og virðist hafa bremsað lítið sem ekkert, með þeim afleiðingum að hann fer yfir kantinn og steypist fram af bryggjunni og endar á hvolti ofan í sjónum.

Voru klukkutíma ofan í sjónum

Neyðarlínunni barst tilkynning klukkan hálf sex og voru viðbragðsaðilar frá Dalvík fyrstir á vettvang.

„Þá var bíllinn í hafinu og það var mjög slæmt veður þarna, stórhríð og bleytuslydda. Og sást ekkert í bílinn,” segir Jóhannes. „Ferjan var þarna við bryggjuna, bæði áhöfn og nokkrir farþegar þar. Það var enginn búnaður á staðnum til þess að reyna björgun, þannig að strax í upphafi voru kallaðir til kafarar og þeir komu þarna síðan á vettvang. Og náðu aðilum úr bílnum, rúmri klukkustund eftir að fyrsta tilkynning barst.”

Sjórinn um þrjár gráður

Sjórinn um fjögurra metra djúpur þar sem bíllinn fór fram af og um þriggja gráðu heitur. Fólkið var flutt á sjúkrahúsið á Akureyri þar sem það var úrskurðað látið. Allir tiltækir viðbragðsaðilar voru kallaðir út; björgunarsveitir, lögregla, slökkvilið, sjúkrabílar, þyrla Landhelgisgæslunnar, læknir, prestur, túlkur og áfallateymi Rauða krossins. Hríseyingar hafa stofnað söfnunarreikning til styrktar ættingjum fólksins og haldin var bænastund í Hríseyjarkirkju klukkan sex. Í tilkynningu frá lögreglu segir að aðstandendur hafi óskað eftir því að nöfn fólksins verði ekki gefin upp.