Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Tilbúin að standa og falla með þessari túlkun

27.04.2017 - 09:12
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir Matvælastofnunar, segir að lög um innflutning dýra kveði á um að lóga skuli tafarlaust dýrum sem koma ólöglega til landsins. Málið hefur vakið mikla athygli og verið borið saman við mál sem kom upp 2013 en þar var lífi læðu sem slapp úr einkaflugvél á Reykjavíkurflugvelli þyrmt. Sigurborg segir að hún sé tilbúin að standa og falla með túlkun laganna um þetta ákvæði.

„Það eru til stjórnsýslulög sem kveða á um meðalhóf og meðal annars er okkur uppálagt að gæta meðalhófs í túlkun laga. Í þessu tilfelli var um augljósan ólöglegan innflutning að ræða, smygl, sem upp um komst og þess vegna gripum við til þeirra aðgerða sem okkur ber að gera.“ sagði Sigurborg í samtali við Morgunútvarpið á Rás2 í morgun. 

Hún segir að mál læðunnar á Reykjavíkurflugvelli sé ólíkt að mörgu leyti. „Það var með okkar vitneskju og heimild frá okkur um að lenda á Reykjavíkurflugvelli og að kötturinn fengi að vera í flugvélinni í einhverja nokkra klukkutíma á meðan eigandinn dvaldi hér á landi, en það var óhapp – slys. Kötturinn slapp út. Í meðalhófi túlkum við lögin þannig að þarna hafi ekki verið ólöglegur innflutningur heldur slys um að ræða og það eru mjög margir ósammála mér um þá túlkun en ég er tilbúin að standa og falla með þessari túlkun, þeim tilvikum um slys og óhöpp og augljós óviljaverk er að ræða.“

Lögin í endurskoðun

Nú eru reglurnar til þess að vernda og passa upp á dýrin og þegar maður nálgast þetta þannig þá er í sjálfu sér enginn munur á því hvort að það verði slys og kötturinn sleppi úr flugvélinni eða að eigandi kattarins komi viljandi með hann leynilega til landsins? Er það ekki alveg rétt?

„Jú það má segja að með því að dýr komi svona til landsins án þess að fara íg egnum þessa skoðun sem þarf að eiga sér stað og bólusetningar sem er grundvöllur að löglegum innflutningi -  Þá er í rauninni skaðinn skeður og þá þarf að bregðast við. Það er tvennt í stöðunni, annað hvort að fjarlægja smitefnið sem er dýrið sjálft og þann búnað sem dýrið hefur komið í snertingu við, það er annað hvort að aflífa dýrið og sótthreinsa það eða fjarlægja dýrið með því að senda það beint úr landi.“ segir Sigurborg.

Hún segir vert að nefna að nú standi yfir endurskoðun á lögunum. Hún á von á því að lagðar verði fram tillögur um breytingar í sumar eða haust. „Þess má geta að núna standa yfir endurskoðun á þessum lögum um dýrasjúkdóma og lög um innflutning dýra þannig mér finnst mjög líklegt að tekist verði á um þetta ákvæði við þessa endurskoðun.“

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV