Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Tilboð ráðherra höfðar til ungra bænda

06.09.2017 - 19:50
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Formaður Landssamtaka sláturleyfishafa segir áhyggjuefni hversu margir ungir sauðfjárbændur sýni því áhuga að hætta búskap gegn greiðslu frá ríkinu. Sláturleyfishöfum gæti reynst erfitt að bregðast við ef margir bændur ákveða að fækka fé í haust. 

 

Á mánudag kynnti landbúnaðarráðherra tillögur vegna erfiðleika í sauðfjárrækt. Stefnt er að því að fækka fé um 20% og fá bændur greitt fyrir að hætta, eða draga úr, framleiðslu. Þeir sem hætta strax eiga kost á að fá áfram greitt 90% af framlögum ríkisins í fimm ár.

Tilboðið höfðar til unga fólksins

Ágúst Andrésson, forstöðumaður kjötafurðastöðvar KS sem er formaður landssamtaka sláturleyfishafa, segir talsvert margar fyrirspurnir frá bændum hafa borist á síðustu dögum og komi á óvart hversu margir sýni tilboðinu áhuga. „En viðbrögðin sem við höfum nú þegar fengið eru í þá átt að þetta virðist höfða svolítið til unga fólksins, sem er kannski akkúrat það fólk sem við viljum ekki missa út úr greininni. En það er það fólk sem kannski sér tækifæri og hefur aðra möguleika til að hverfa að, önnur atvinnutækifæri og slíkt, og við höfum verulegar áhyggjur af þessu ef þetta verður niðurstaðan í þessu,“ segir Ágúst. 

Ekki markmið að hvetja unga bændur til að hætta

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að markmiðið hafi alls ekki verið að hvetja unga bændur til að hætta búskap. „Mín nálgun til að byrja með var að miða þetta við eldri bændur, hjálpa þeim út úr greininni því þeir hafa verið að koma meðal annars í ráðuneytið til mín og biðja um hjálp og aðstoð því að þeim fannst til að mynda búvörusamningurinn ekki hjálpa sér nægilega við að komast með reisn út úr greininni. Það er náttúrulega það síðasta sem ég vil sjá að ungir bændur fari út úr grein sem ég tel að eigi mikla möguleika fyrir sér,“ segir Þorgerður. 

Fækkun eykur álag á sláturhús

Samkvæmt tillögum ráðherra fá þeir hæstar greiðslur sem hætta sauðfjárrækt strax. Ef margir bændur ákveða að þiggja boðið og slátra öllu sínu fé í haust þá hefur það í för með sér aukið álag á sláturhús landsins. 

„Ef það á að fara að slátra miklu í haust til að skera niður þá er það áhyggjuefni. Ég sé ekki að við höfum meiri sláturgetu heldur en við erum þegar komin með. Við erum alveg með áætlun út október og það er því miður ekki hægt að koma miklu meira við,“ segir Sigmundur Hreiðarsson, framleiðslustjóri Norðlenska á Húsavík. 

Ágúst tekur undir að mikil fækkun setji sláturhúsin í vanda. Líklegt sé þó að málið verði leyst, en til þess þurfi aðgerðir. 

„Það er alveg ljóst að ef það verður einhver sprenging í þessu og aukin eftirspurn eftir slátrun vegna þess að menn ætla að bregða búi þá þarf að gera einhverjar ráðstafanir til þess,“ segir Ágúst.