Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Til þín

27.01.2014 - 12:04
Mynd með færslu
 Mynd:

Guðrún Árný Karlsdóttir - flytjandi

Guðrún Árný er á 32. aldursári og býr í Hafnafirði með eiginmanni sínum, Sveinbirni Enokssyni og þau eiga saman tvo drengi. Hún er stúdent frá Flensborgarskólanum og er með BA-gráðu í tónlist og kennslufræði.

Guðrún er mikil tónlistarkona og lærði meðal annars á píanó í 16 ár. Hún vann Söngkeppni Samfés með stæl 1997 er hún flutti Greatest love of all, og bar einnig sigur úr býtum í Söngkeppni framhaldsskólanna 1999. Hún var lengi í kór og hefur kennt grunnskólabörnum tónmennt í mörg ár, en vinnur einnig fyrir sér sem söngkona. Guðrún Árný hefur nokkrum sinnum tekið þátt í undankeppni Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva áður, bæði sem söngkona og píanóleikari. Hún kynntist höfundi lagsins sem hún syngur í ár fyrst við undirbúning Söngvakeppninnar 2006 en þá unnu þau saman að laginu hans Andvaka.

Guðrún Árný hugsar til drengjanna sinna þegar hún syngur lagið Til þín, en hún segir stundum erfitt að kveðja þá til að fara út á kvöldin að vinna við sönginn. Hún elskar Eurovision og finnst meiriháttar að fá að taka þátt í Söngvakeppninni 2014.

 

Trausti Bjarnason – höfundur lags

Trausti Bjarnason fæddist í Reykjavík 1971, en telur sig Önfirðing því þar bjó hann frá fimm ára aldri til þrítugs. Hann er giftur Sigríði Sveinbjörnsdóttur og búa þau saman í Reykjavík með fjórum börnum sínum.

Trausti er í verkfræðinámi og vinnur sem tæknimaður hjá Statoil í Noregi auk þess að vera á fullu í undirbúningi fyrir Söngvakeppnina. Hann byrjaði ungur að glamra á píanó og semja tónlist, en segir lagið Wish you were here með Pink Floyd vera hið fullkomna lag. Til þín, sem er á mjög persónulegum nótum, segir Trausti hafa orðið til fyrir allnokkru þegar hann var að svæfa yngstu börnin sín. Hann þurfti að útskýra fyrir þeim að hann færi til vinnu í Noregi morguninn eftir og sæi þau ekki aftur í heilan mánuð. Honum finnst textinn ná nákvæmlega sömu grunntilfinningu og lagið var upprunalega hugsað í og hefur lagt mikið á sig til að gera lokaútgáfu lagsins sem besta. Hann segir lagið fylla sig angurværð og væntumþykju í garð fjölskyldu sinnar.

 

Guðrún Eva Mínervudóttir – höfundur texta

Guðrún Eva Mínervudóttir er 38 ára rithöfundur. Hún býr í Hveragerði með eiginmanni sínum, Marteini Þórssyni leikstjóra, og dóttur þeirra. Hún er með BA-gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands.

Guðrún segir að lagið Til þín fjalli um ástina og heimkomuna og tengir textann við allar ljúfsáru kveðjustundirnar í lífi sínu. Trausti Bjarnason, höfundur lagsins, hafði samband við Guðrúnu Evu og bað hana um að semja textann, en hann hafði ákveðnar hugmyndir um innihaldið. Henni leist vel á höfundinn og þótti lagið fallegt og féllst því á að taka verkið að sér. Til þín er fyrsti og eini lagatextinn sem Guðrún Eva hefur samið.

 

Til þín

Augun þín tær

röddin þín skær

fylgja mér langt á veg,
langt út í heim

Heim sem er stór

og svo smár í senn,
passar í litla lófann þinn

Því þú ert
allt sem er

og ég fer

til þess að koma aftur til þín

Tíminn fer hægt
læðist svo hægt

en við látum hann fljúga,
skila mér heim

Því lofa ég,
lofa þú því, barnið mitt

að herða upp snjalla hugann þinn

Því þú ert

allt sem er
og ég fer

til þess að koma aftur

Tímann gerum við
að fleygum heilladreka

Við temjum dagana
temjum þá saman,
látum þá fljúga

Tímann gerum við

að fleygum heilladreka,
heilladreka sem hlær
framan í allar hættur,
Tímann látum við
fljúga í háloftunum
til þín