Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Til skoðunar að lækka fasteignagjöld

19.06.2017 - 11:11
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að hafin verði vinna við að undirbúa lækkun fasteignaskatta hjá Reykjavíkurborg. Borgarráð hefur samþykkt að vísa tillögunni til skoðunar við gerð fjárhagsáætlunar.

Líkt og fjallað var um í byrjun júní þá hækkar fasteignamat á Íslandi um tæp 14 prósent milli ára og verður 7.288 milljarðar króna fyrir árið 2018. Heildarfasteignamat á höfuðborgarsvæðinu hækkar um 14,5 prósent. Leiðir þetta að óbreyttu til hækkunar fasteignagjalda, enda eru þau reiknuð sem hlutfall af fasteignamati. 

Félag atvinnurekenda hefur bent á að hækkunin komi sér illa fyrir fyrirtæki, enda tengist fasteignaverð yfirleitt ekki afkomu fyrirtækja. Samkvæmt lögum eru fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði 1,32 prósent af fasteignamati, en sveitarfélögum er heimilt að leggja á þá skattprósentu fjórðungsálag, sem er gert í flestum stærstu sveitarfélögum landsins. Fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði geta verið allt að 0,5 prósent af fasteignamati. 

Á fundi Borgarráðs á fimmtudag lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að hafin verði vinna við að undirbúa lækkun fasteignagjalda hjá Reykjavíkurborg, vegna hækkunar fasteignamats umfram eðlilega verðlagsþróun. Tillagan var fyrst lögð fram þann 8. júní en þá var afgreiðslu hennar frestað. Borgarráð samþykkti á fundinum sl. fimmtudag að vísa tillögunni til skoðunar við gerð fjárhagsáætlunar.