Til í að minnka sinn hlut úr helmingi í 30 prósent

04.12.2019 - 06:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjárfestum sem hafa verið í viðræðum um að koma að stofnun lágfargjaldaflugfélagsins Play býðst nú að eignast 70 prósenta hlut í flugfélaginu fyrir hlutafé sitt í stað 50 prósenta eins og gert var ráð fyrir í fyrstu. Stofnendur flugfélagsins hugðust í fyrstu fá 50 prósent flugfélagsins í sinn hlut en eru nú reiðubúnir að sætta sig við 30 prósenta hlut, samkvæmt frétt Markaðarins, viðskiptahluta Fréttablaðsins.

Eins og kom fram í fréttum RÚV um helgina hefur fjármögnun Play gengið hægar en forsvarsmenn félagsins vonuðust til. Það varð meðal annars til þess að farmiðasala frestaðist. Hún átti að hefjast um mánaðamótin en tilkynnt var á laugardag að ekkert yrði af því. Nú er vonast til að salan hefjist fyrir áramót.

Forsvarsmenn félagsins settu áætlun Play þannig upp að þeir eignuðust 50 prósent hlutafjár en að fjárfestar sem koma með hlutafé fengju 50 prósent á móti þeim. Þetta mætti andstöðu. Í Markaðnum í dag segir að forsvarsmenn Play hafi nú boðist til að minnka sinn hlut úr 50 prósentum í 30 prósent. Fjárfestar sem leggja fram 1.700 milljónir króna fengju samkvæmt því 70 prósenta hlut í félaginu. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi