Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

„Til hvers er nálgunarbann?“

07.05.2014 - 22:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Nálgunarbann er fullkomlega gagnslaust þegar lögregla bregst ekki við því þegar það er brotið, segir Ásdís Hrönn Viðarsdóttir sem steig fram í Kastljósi í kvöld og sagði sögu sína.

 

Sveitarstjórinn í heimabæ Ásdísar segist undrast mjög viðbrögð lögreglu við áreiti mannsins. Lögregla hafi ítrekað sagst ráðalaus á meðan maðurinn beiti ekki líkamlegu ofbeldi.

 

Ásdís hefur ítrekað kært hótanir og brot á nálgunarbanni sem sett var á fyrrverandi sambýlismann hennar í haust. Ásdís flúði ásamt ungum börnum sínum til Þórshafnar á Langanesi af ótta við manninn en lögregla rannsakar nú fjórar alvarlegar líkamsárásir hans gegn henni. Lögreglan á Höfuðborgarsvæðinu fer með rannsókn málsins þar sem maðurinn er búsettur á höfuðborgarsvæðinu. Samfélagið á Þórshöfn hefur ekki farið varhluta af ónæði mannsins sem hefur meðal annars staðið í hótunum við sveitarstjóra Langanesbyggðar. Fjöldi fólks hefur orðið fyrir ónæði frá hendi mannsins á Þórshöfn sem varð til þess að sveitarstjóri ákvað í samráði við Ásdísi og yfirvöld í bænum að vara við manninum í bréfi til bæjarbúa.

Í Kastljósi í kvöld kom einnig fram að síðan viðtalið við Ásdísi var tekið fyrir tæpri viku hafi ekkert lát orðið á hótunum og ónæði í garð hennar og fleiri einstaklinga á Þórshöfn. Maðurinn hefur meðal annars sent nokkrum aðilum myndskeið sem hann hafði hótað að setja í umferð. Leitað var til lögreglu vegna þess í dag og sem taldi sig þó ekki geta aðhafst. Enn ein kæran verður því lögð fram gegn manninum vegna málsins. Kastljós leitaði viðbragða hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem fer með rannsókn málsins ásamt lögreglunni á Húsavík en þar á bæ kváðust menn ekki vilja tjá sig um málið þar sem það væri í rannsókn