„Til hamingju með að vera frá Íslandi“

Mynd: EPA-EFE / EPA

„Til hamingju með að vera frá Íslandi“

05.03.2018 - 16:08
Jürgen Klopp knattspyrnustjóri enska félagsins Liverpool sat fyrir svörum á blaðamannafundi í Liverpool í dag fyrir síðari leik Liverpool og Porto í Meistaradeild Evrópu í fótbolta. Magnús Már Einarsson ristjóri íslensku fótboltavefsíðunnar fotbolti.net var meðal blaðamanna í salnum og ákvað að spyrja Klopp út í möguleika Íslands á HM í fótbolta í sumar þegar Magnús fékk orðið.

Klopp hló fyrst en svaraði svo. „Ég var á Íslandi síðasta sumar. Þar var frábært að vera. Hvað búa nákvæmlega margir á Íslandi? Eitthvað í kringum 300 þúsund?“ Magnús Már svaraði Klopp þá að íbúafjöldi á Íslandi í dag væri í kringum 340 þúsund.

„Ég trúi því ekki. Það er ótrúlegt. Það er augljóst að það skiptir mestu máli að vera með rétta fólkið í liðinu þínu, en ekki hversu margir búa í landinu. Íslendingar hafa náð frábærum árangri í fótbolta og ekki bara í fótbolta heldur líka í handbolta og fleiri íþróttum. Maður myndi halda að Ísland væri bara fullt af íþróttafólki, en þar eru líka læknar og kennarar. Ég skil þetta ekki. Ef Þýskaland verður ekki heimsmeistari í sumar og ekki England heldur þá vona ég að Ísland verði heimsmeistari. Það yrði stærsta íþróttaafrek sögunnar. Ég kann vel við hugarfar Íslendinga. Það er frábært. Til hamingju með að vera frá Íslandi,“ sagði Jürgen Klopp stjóri Liverpool.