Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tífalt meiri hvalveiðar stækki fiskistofna

17.01.2019 - 13:31
Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Veiða þyrfti tíu sinnum meiri hval ef stækka ætti fiskistofna. Þetta segir sviðstjóri botnsjávarlífríkis hjá Hafrannsóknastofnun. Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands segir að fjörutíu prósent fækkun hvala skili því að útflutningsverðmæti aukist um tugi milljarða.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands skilaði sjávarútvegsráðherra skýrslu í gær um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða. Einn skýrsluhöfunda sagði í fréttum RÚV í gærkvöldi að hvalir éti sjö- til áttfalt magn af því sem allur íslenski fiskiskipaflotinn veiðir og át hvala hafi mikil áhrif á stærð fiskistofna. Auknar hvalveiðar myndu hafa jákvæð áhrif á fiskistofna. Í skýrslunni kemur fram að ef hvölum fækkar um 40% leiði það til tugmilljarða aukningar á útflutningsverðmæti Íslendinga á loðnu og þorski á ári.

En eru fiskifræðingar sammála því að með því að veiða meira af hval stækki fiskistofnanir?

„Já og nei. Ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar um hvalveiðar byggir á nálgunum Alþjóðahvalveiðiráðsins sem gengur út á það að ganga ekki mjög mikið á hvalastofnana þannig að þeir séu nálægt upprunaleg stærð. Til þess að hafa áhrif á afrán hvala á fiskistofnun þá þyrfti líklega að veiða margfalt meira en það sem er verið að ráðleggja,“ segir Guðmundur Þórðarson er sviðstjóri botnsjávarlífríkis hjá Hafrannsóknarstofnun.

Hversu mikið meira?

Við erum að tala um umtalsvert meira jafnvel tíu sinnum meira eða eitthvað slíkt til þess að hægt væri að sýna fram á möguleg áhrif hvalveiða til þess að byggja upp fiskistofna,“ segir Guðmundur. 

Hann segir að það geti verið rétt að hvalir éti sjöfalt það sem fiskiskipaflotinn veiðir. Hvalir séu þó ekki endilega að éta þorsk.

„Þeir eru náttúrulega að veiða oft á öðrum stað í lífkerfinu heldur en við,“ segir Guðmundur

Hnúfubakur hefur verið friðaður hér við land frá 1955 og voru Íslendingar meðal fyrstu þjóða til að friða hann. Fram kemur í skýrslunni að afrán hnúfubaks hafi aukist mest þegar afrán hvala er skoðað. Ríflega helmingur þess sem hnúfubakur étur er loðna. Át hans á fiski hefur aukist um rúm fimm hundruð þúsund tonn á síðustu tuttugu árum. Guðmundur bendir á að ekki standi til að hefja veiðar á hnúfubak að nýju.

„En það er verið að tala um að veiða langreyði sem étur aðallega átu. Þannig að það er erfitt að sýna fram á að það hafi mikil áhrif veiðar á langreyði til byggja upp fiskistofna.  Megnið af fæðu þessara stóru skíðishvala er áta. Þannig að þeir eru þá í samkeppni kannski við fiskistofna en  ekki oft beint að éta eins og þorsk og svona. Það er þá kannski helst hrefnan sem er í því. En hrefnu hefur fækkað á landgrunninu. Hún virðist hafa fært sig norðar líklega. Þannig að þetta er alls ekki einfalt mál,“ segir Guðmundur.