Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Tíð Grímsvatnagos næstu áratugi

06.06.2012 - 20:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Búast má við Grímsvatnagosum á fimm til tíu ára fresti næstu áratugina, segir Magnús Tumi Guðmundsson. Hópur vísindamanna er nú í Grímsvötnum við mælingar.

Jarðhitasvæðið í Grímsvötnum er vel sýnilegt hópi fólks sem þar er statt við rannsóknir. Magnús Tumi Guðmundsson segir að búast megi við Grímsvatnagosum á 5 til 10 ára fresti næstu áratugi. Kosturinn sé sá að þau séu langt frá byggð og því áhrifin oftast lítil. 

Fólk frá Raunvísindastofnun, Veðurstofunni, Landsvirkjun og Jöklarannsóknarfélaginu hélt í Grímsvötn fyrir nokkrum dögum til að setja upp gps-mælitæki, taka sýni úr jöklinum og að lesa af mælum.

Ketillinn sem myndaðist í Grímsvatnagosinu í fyrra var allt að einn og hálfur kílómetri í þvermál. Það samsvarar vegalengdinni milli Aðalstrætis og Hlemms.

Ómar Ragnarsson hefur verið tíður gestur með kvikmyndavél sína í Grímsvötnum í gosum síðustu ára. „Grímsvötn koma manni alltaf á óvart, hér er allt svo stórt í sniðum. Hér var stór gígur sem myndaðist með tveimur lónum 2004 og svo aftur á svipuðum slóðum núna, samt er allt annað að koma að eldstöðinni núna heldur en fyrir sjö árum," segir hann.

Jarðhitasvæðið sést best í vesturhluta gígsins. Gígurinn var hulinn vatni í fyrra en síðustu daga hefur það svo að segja horfið miðað við sem var. Vatnið er vel heitt og gufan stígur upp. 

Grímsvatnagos hegða sér þannig að gosin koma í hrinum, segir Magnús Tumi Guðmundsson, og stendur hver hrina í 60 til 80 ár. Síðasta hrina hófst með Gjálpargosinu 1996, svo varð Grímsvatnagos 1998, annað 2004 og það þriðja og langstærsta í fyrra. 

„Það má búast við því að þetta þróist þá svona næstu áratugina að þá verði nokkuð tíð gos í Grímsvötnum, það verði svona fimm til tíu ár á milli þeirra. Það er bara þannig með Grímsvötn að þau eru það langt í burtu frá byggð að ef þau eru venjuleg Grímsvatnagos þá hafa þau sáralítil áhrif," segir Magnús Tumi og bætir við að gjóskufallið verði ekki mikið í byggð.

„Það þarf svona stærri Grímsvatnagos eins og varð í fyrra til þess að áhrifin verði veruleg í byggð," segir hann.