Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þýskur nýnasisti í ævilangt fangelsi

11.07.2018 - 17:11
epa06879824 Defendant Beate Zschaepe waits for the start of the NSU trial at the higher regional court (Oberlandesgericht, OLG) in Munich,  Germany, 11 July 2018. The court found Beate Zschaepe guilty on ten counts of murder on 11 July 2018, some five
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þýskur nýnasisti var í dag dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir 10 morð sem öll eru sprottin af kynþáttahatri. Réttarhöldin yfir konunni hafa staðið í fimm ár.

Beate Zschäpe var fundin sek um að hafa myrt átta Tyrki, einn Grikkja og þýska lögreglukonu á árunum 2000 til 2007.

Lögregla fann á sínum tíma engin tengsl á milli morðanna 10 og það var ekki fyrr árið 2011 að lögreglan uppgötvaði tengslin þegar rán nýnasistahóps fór út um þúfur.

Zschäpe deildi íbúð í austurhluta Zwickau með tveimur körlum sem virðast hafa stytt sér aldur eftir að ránið fór í vaskinn. Þau þrjú höfðu stofnað litla sellu sem þau kölluðu Neðanjarðarhreyfingu þjóðernissósíalista, sem er bein vísun í nasistaflokk Adolfs Hitlers.

Samfleytt sjö ára starfsemi hreyfingarinnar, 10 morð, tvö sprengjutilræði og 15 bankarán, fór algerlega framhjá eftirliti stjórnvalda með starfsemi nýnasistahreyfinga og leiddi til rannsóknar á því hvernig lögreglunni tókst að komast hjá því að tengja þessi 10 morð. Þýskalandi er skipt upp í 16 lögregluumdæmi sem, hvert um sig er afar sjálfstætt og er það talið ein ástæða þess að ekki tókst að tengja morðin saman.

Auk Zschäpe, sem hlaut lífstíðardóm, voru fjórir karlar dæmdir fyrir aðild að morðunum, frá 2ja til 10 ára fangelsi.

Zschäpe, sem er 43ja ára, brosti og virkaði afslöppuð rétt áður en lífstíðardómurinn yfir henni var kveðinn upp. Hún tók aðeins tvisvar til máls í þau fimm ár sem réttarhöldin stóðu. Hún segist vera saklaus af morðunum, en finni til sektarkenndar yfir því að hafa ekki gert meira til þess að koma í veg fyrir þau. 

Verjandi hennar segir að lífstíðardóminum verði áfrýjað.

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV