Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þýskir samfélagsbankar: Mikil markaðshlutdeild

17.02.2016 - 15:06
Mynd: Anton Brink / RÚV
Hvað er samfélagsbanki spurðu margir eftir að umræða um að breyta Landsbankanum í samfélagsbanka í stað þess að selja hann einakaaðilum , komst í hámæli ekki síst fyrir tilverknað Frosta Sigurjónssonar alþingismanns. Á málþingi Dögunar, samtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði var þess freistað að svara þeirri spurningu. Þar talaði meðal annarra framkvæmdastjóri Sparkassen bankanna í Þýskalandi, Wolfram Morales og útskýrði hvernig þetta net samfélagsbanka starfaði.

Löng saga sparkassen

Sparkassen bankarnir eiga sér sögu í Þýskalandi allt til ársins 1778 þegar fyrsti bankinn var stofnaður í Hamborg. Þetta form bankarekstrar breiddist síðan út um Þýskaland, bankarnir voru einkum  í eigu sveitarfélaga.  Í kreppunni miklu urðu breytingar til þess sem ríkir enn þann dag í dag.  Sparkassen bankarnir voru gerðir að sjálfseignarstofnunum sem starfa samkvæmt sérstökum lögum sem um þá gilda. Þar sem enginn á þá er bannað að selja þá, enda enginn sem getur selt þá og þeim eru settar mun strangari reglur en einkareknum bönkum á ýmsum sviðum.  Strangar gilda um áhættuviðskipti, og bónusgreiðslur til starfsfólks eru bannaðar. Viðskiptavinir Sparkassen bankanna eru almenningur,  og lítil og meðalstór fyrirtæki, en slík fyrirtæki eru raunar hryggjarstykkið í þýska hagkerfinu. Þá eru Sparkassen bankarnir  skyldaðir með lögum til  að þjóna öllum jafnt, þeir geta ekki hætt starfsemi á ákveðnum svæðum á þeim forsendum að viðskiptin séu lítt eða ekki hagkvæm. Sparkassen banki getur ekki lokað útibúum eins og íslensku bankarnir hafa gert í hagræðingarskyni. Wolfram Morales segir að hvergi í öllu Þýskalandi sé lengri leið að næsta Sparkassen útibúi en  5 - 6 kílómetrar. Almenn bankastarfsemi, móttaka innlána og veiting lána er fyrst og fremst í verkahring Sparkasse bankanna, önnur bankastarfsemi er á hendi stóru einkabankanna. Síðast en ekki síst ber Sparkassen bönkunum lagaleg skylda til að verja hagnaði sínum til verkefna á starfssvæði hvers og eins banka. Sparkassen bankarnir eru að mestu sjálfstæðar einingar sem eru samtengdar með ýmsu móti, hafa sameiginlega yfirstjórn og eitt miðlægt gagnaver. Hlutdeild Sparkassen bankanna í almennri bankastarfsemi er mikil,segir Wolfram Morales.

Mikil makaðshlutdeild

Ef litið er á innlánin, þá er hlutdeildin um 50 prósent.  Hlutdeild í útlánum er um 40 prósent.Hlutdeild í lánum til lítilla og meðalstórra fyrirtækja er 44 prósent. Þetta er hins vegar breytilegt milli landsvæða. Í dreifbýli er markaðshlutdeildin allt upp í 90 prósent en í borgum þar sem margir bankar starfa getur hún farið niður fyrir þriðjung.

Þýska bankakerfið hvílir a þrem meginstoðum, einkabönkum, sparkassen bönkum og samvinnubönkum sem eru í eigu samvinnuhreyfingar og þjóna meðlimum hennar. Sé litið til Bretlands þá er markaðshlutdeild fjögurra  stærstu einkabankanna um 85 prósent. Í Þýskalandi er markaðshlutdeild  einkabankanna í almennri bankastarfsemi 20 til 25 prósent. 75 til 80 prósent markaðarins er á höndum sparkasse bankanna og samvinnubankanna.

Mikið traust

Wolfram Morales hefur auðvitað heyrt raddir sem segja að bankakerfi sem þetta geti ekki verið það besta, bankastarfsemi sé fyrir einkaaðila og það sé ávísun á spillingu að opinberir aðilar véli með annarra fé en ekki sitt eigið. Hann segir að slíkar raddir séu aðhlátursefni í Þýskalandi, því reyndin sé þveröfug. Hjá Sparkassen séu afar strangar reglur sem eiga að koma í veg fyrir spillingu. Stjórnmálamenn ráði aðeins þriðjungi í æðstu stjórn. Sérfræðingar einum þriðja og notendur einum þriðja. Nýleg skoðanakönnun segi meira en mörg orð. Samkvæmt henni eru sparkassen bankarnir mjög ofarlega á blaði meðal þeirra stofnana í þýsku samfélagi sem almenningur treystir mjög vel.  54 prósent segjast treysta þeim mjög vel en sambærileg tala fyrir einkabankana er 21 prósent. 

Wolfram Morales segir það eðli áhættuviðskipta af því tagi sem stórir bankar á borð við Deutsche bank stunda að stundum verði mikill gróði og líka stór töp. Þetta endurspeglast í því segir hann hverju þessar stofnanir skila til samfélagsins.

Leggja meira til samfélagsins en stórir einkabankar

Þegar litið er á summu allra skatta sem þýskir bankar greiða kemur í ljós að sparkassen bankar greiða tvöfalt á við einkabankana. Sparkassen bankar eru líka 50 prósentum hagkvæmari en stærsti banki Þýskalands, Deusche bankí þeim skilningi að þeir fyrir hverja fjármálaafurð, greiða þeir helmingi minna. Sparkassen bankarnir hafa líka sterkari eiginfjárstöðu. Morales er þeirrar skoðunar að einkabankarnir geri vel í almennri bankaþjónustu, en í heildina standi áhættusæknin þeim fyrir þrifum. Þeir standi sig einungis vel í heildina þegar verðþensla er í verðbréfaviðskiptum áður en kemur að verðfalli.

Velþóknun almennings í garð sparkassen telur Morales stafa af því að allir eiga aðgang að þjónustu í nærumhverfi sínu, lítil fyrirtæki og meðalstór njóti skilnings, litlu sparkassen útibúin séu til staðar fyrir þau og tali sama tungumál og þau. Vinsældir sparkassen bankanna stafi líka af því að almenningur sjái hver í sínu heimahéraði að sparkassen leggi fram fé til ýmiskonar samfélagslegra málefna, Hagnaður hverfur ekki úr héraði. 

jongk's picture
Jón Guðni Kristjánsson
Fréttastofa RÚV