Þyrluslysið: Tveir farnir úr landi

23.05.2016 - 19:53
Rannsóknarnefnd samgönguslysa hélt áfram rannsókn sinni á vettvangi þyrluslyssins á Hengilssvæðinu suður af Nesjavallavirkjun í gærkvöld. Enginn þeirra fimm sem voru um borð er í lífshættu.

Neyðarboð bárust frá þyrlunni klukkan korter fyrir átta. Farþegarnir hringdu stuttu síðar í Neyðarlínuna og gáfu upp nákvæma staðsetningu. Ekki er vitað úr hve mikilli hæð þyrlan hrapaði. Slysið varð við fjallið Nesjaskyggni austan við Hengilinn. Þyrlan er við gufuhveri í nokkur hundruð metra hæð.  

Fimm voru um borð - íslenskur flugmaður, Ólafur Ólafsson kenndur við Samskip, þrír erlendir viðskiptafélagar hans; einn Dani og tveir Finnar. Þrír voru lagðir inn á spítala í gærkvöld með beinbrot og tveir voru undir eftirliti. Finnarnir tveir fóru utan í dag og verða þar undir eftirliti lækna. Daninn og flugmaðurinn gengust undir aðgerð í dag. Ólafur meiddist á hálsi og hrygg. 

Þorkell Ágústsson stjórnandi rannsóknarinnar segir verið að meta hvort þyrlan verði flutt af slysstað á morgun eða hinn. Hann segir að vélin sé töluvert skemmd. Rannsakendur reyna að ná tali af farþegum eins fljótt og hægt er eftir flugslys. Eftir vettvangsrannsókn hefst frumrannsókn sem stendur allt að fjórar vikur og síðan hefst eiginlegt rannsókn. 

Ólafur sem á þyrluna segir í yfirlýsingu í nótt að mikilvægast sé að allir hafi sloppið tiltölulega vel frá slysinu miðað við aðstæður og þakkar björgunarfólki og starfsfólki Landspítalans. 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi