Þyrftum annan Þór til að bjarga Viking Sky

24.03.2019 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Annað varðskip álíka öflugt og varðskipið Þór þyrfti að koma til sögunnar svo Íslendingar væru undir annað eins búnir og þær björgunaraðgerðir sem ráðast þurfti í undan ströndum Noregs. Landhelgisgæslan mun fara yfir sínar áætlanir í kjölfar atviksins, segir verkefnastjóri hjá gæslunni. Viking Sky sé áminning um mikilvægi þess að eiga góðan skipaflota.

Enda þótt þyrluflugmenn hafi haft sig alla við skammt undan Molde í Noregi er ljóst að Íslendingar eru ekki í stakk búnir fyrir slíka aðgerð, kæmi til þess að álíka stórt skip yrði vélarvana undan ströndum Íslands. Landhelgisgæslan hefur aðeins tvær þyrlur til taks hverju sinni, en fimm þyrlur voru á sveimi í kring um Viking Sky.

„Við gerum almennt ekki ráð fyrir því að rýming á svona stóru skipi sé þyrluverkefni, enda er það búið að taka sólarhring að ná fimm hundruð manns frá borði, einum þriðja af fjöldanum um borð,“ segir Auðunn Kristinnsson, verkefnastjóri aðgerðasviðs hjá Landhelgisgæslunni. Áætlanir Landhelgisgæslunnar geri ráð fyrir að draga skemmtiferðaskip í öruggt skjól, en til þess þarf öflugt varðskip. Mikil búbót þótti þegar Þór var tekinn í notkun árið 2011, en viðbragðstíminn getur verið langur þegar eitt slíkt skip er á sjó.

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Þór kom sterkur til leiks árið 2011.

Gæti tekið sólarhring að komast að vélarvana skipi

„Norðmenn hafa þjónustuskip við olíborpallana sem geta aðstoðað í svona tilfellum, sem við höfum ekki, þannig að það er mikilvægt að við höfum öflug dráttarskip sem geta brugðist við í svona tilfellum,“ segir Auðunn. „Við erum með eitt skip, og það er samtal í gangi við stjórnvöld um að efla þennan varðskipaflota okkar og fá fleiri slík skip. Vonandi sjáum við fram á betri tíma í því. Ef að svo óheppilega vill til að við erum með skip hinum megin á landinu þá getur ferðatíminn verið yfir sólarhringur þannig að það er mikilvægt að við eflum þennan skipaflota okkar.“

Skemmtiferðaskip á borð við Viking Sky eru ekki óþekkt hér á landi. Þvert á móti hefur farþegaskipum sem hingað koma fjölgað talsvert undanfarin ár. Til að mynda eru næstum tvö hundruð komur áætlaðar til Faxaflóahafna í ár samanborið við um sjötíu komur slíkra skipa árið 2010. Samkvæmt dagatali Faxaflóahafna kemur skipið hingað til lands í sumar.

„Eins og hefur komið fram er engin þjóð í sjálfu sér í stakk búin til að eiga við svona stór verkefni,“ segir Auðunn þegar hann er spurður um þessa fjölgun skipa, hvort Íslendingar séu í stakk búnir undir komu skipana. „En við höfum verið að styrkja okkar áætlanir og styrkja okkar innviði. Við höfum verið að fókusera á samstarf við nágrannaríkin. Þannig að við teljum okkur svo sem vera ágætlega búin í þetta miðað við allt og allt en það er hægt að gera betur,“ segir hann.

„Við þurfum að læra af svona tilfellum eins og í Noregi og sjá hvað olli því að þetta fór svona vel hjá þeim og reyna að innleiða sömu áætlanir hjá okkur.“

 

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi