Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Því fylgi mikil ábyrgð að selja frá sér land

27.07.2018 - 19:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Oddvitar sveitarfélaganna við Hafralónsá í Þistilfirði segja að þeir sem eignist jarðir við ána verði að tryggja þar áframhaldandi starfsemi og taka þátt í samfélaginu. Þá fylgi því mikil ábyrgð að selja frá sér land. Bóndinn á Gunnarsstöðum segir það stórhættulegt að missa eignarhald á stórum landsvæðum.

Fjórar jarðir við Hafralónsá eru í eigu erlendra og innlendra fjárfesta. Félagið Hegraþing ehf. á Hallgilsstaði 2, en Sólarsalir ehf. eiga Hvamm eitt, þrjú og fjögur. Að baki þessum félögum standa meðal annarra fjárfestarnir James Ratcliffe og Jóhannes Kristinsson. Þessum jörðum fylgir laxveiðiréttur í Hafralónsá og margir heimamenn við ána telja að ásókn í jarðir í sveitinni snúist um það eitt að ná yfirráðum yfir ánni.

Jákvætt að jarðirnar séu verðmætar

Hafralónsá tilheyrir tveimur sveitarfélögum. Austan við ána er Langanesbyggð, en Svalbarðshreppur vestan við. „Mér finnst náttúrulega mjög jákvætt að jarðnæði hjá okkur sé verðmætt og að menn vilji kaupa það,“ segir Sigurður Þór Guðmundsson, oddviti Svalbarðshrepps. „En auðvitað hefur maður alltaf einhverjar áhyggjur af því þegar menn fara að verða stórtækir í jarðauppkaupum og fáir eða einn aðili eru að kaupa mjög margar jarðir.“

Þeir sem gangi fram með ofbeldi séu ekki velkomnir

Þannig verði menn umsvifamiklir á fámennu svæði og þá skipti miklu máli að þeir verði hluti af samfélaginu og taki þátt í því. Sá sem kaupi jörð verði að nýta hana áfram, viðhalda þar starfsemi og byggja upp. „Auðvitað verða menn að falla í hópinn. Það gengur ekki að menn gangi fram með ofbeldi eða kúgunum á nágranna sína, eða óhóflegum þrýstingi. Það er mjög óeðlilegt og ég held að við getum aldrei sætt okkur við slíka hegðun og þeir menn verða aldrei velkomnir hingað,“ segir Sigurður.

Verði að stíga varlega til jarðar þegar land er selt

Undir þetta tekur Þorsteinn Ægir Egilsson, oddviti Langanesbyggðar. Jarðirnar verði að nýta í sátt við samfélagið. Og hann vill að menn stígi varlega til jarðar og hugsi sig vandlega um áður en þeir selja jörðina sína. „Menn þurfa að hugsa sinn gang, þetta eru náttúrulega ákvarðanir til framtíðar og þarna eru hlunnindi og vatnsréttindi og annað sem að menn þurfa bara að hugsa út í þegar menn taka þá ákvörðun að selja landið sitt.“

Stórhættulegt að missa eignarhald á stóru landsvæði

Hafralónsá er stór tekjustofn í þessari byggð og að missa þær tekjur til annarra og burt úr samfélaginu vekur ótta heimamanna. Og eignarhald á landi og bújörðum almennt sé afar mikilvægt.  „Við verðum að gera okkur grein fyrir því að land er eitthvað sem er til framtíðar og það að missa allt eignarhald á landi á stóru svæði er stórhættulegt,“ segir Jóhannes Sigfússon. bóndi á Gunnarsstöðum. „Ætlum við Íslendingar að enda eins og einhver Palestína, landlaus þjóð í eigin landi.“