Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Þversnið af íslenskri samtímamyndlist

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Þversnið af íslenskri samtímamyndlist

21.03.2017 - 15:11

Höfundar

Í lok apríl opnar sýning í Kling og Bang gallerí í Marshall-húsinu, þar sem boðið verður upp á einhvers konar þversnið af því sem er að gerast í íslenskri samtímamyndlist á Íslandi við upphaf 21. aldar. Í sjónvarpsþættinum Opnun, sem hefur göngu sína á RÚV í kvöld, er opnað fyrir hugarheim þeirra 12 listamanna sem taka þátt í sýningunni.

Hvað er það sem myndlist getur opnað fyrir manni og hvernig? Hvað er það sem drífur myndlistarmenn áfram til þess að skapa ný verk. Í fyrsta þættinum kynnumst við tveimur myndlistarmönnum sem nota myndlist til að kortleggja hvernig við upplifum umhverfið – en einnig til þess að hrófla við manni.

Elín Hansdóttir er þekkt fyrir stórar innsetningar sem taka yfir allan sýningarsalinn og umbreyta honum. Hún spáir í fjarvídd, framhlið og bakhlið, ólík sjónarhorn og hikar ekki við að nota sjónhverfingar.

Mynd: RÚV / RÚV
„Heimurinn þarf ekki að vera í 90° vinklum.“

Nýleg sýning Elínar hét Simulacra, sem mætti þýða sem myndir af einhverju eða eftirmyndir einhvers. Það felur í sér að færa eitthvað úr raunveruleikanum og yfir á annað form.

Haraldur Jónsson er heldur ekki ókunnugur tilfærslum í raunveruleikanum. Hann spáir mikið í tengsl líkama og rýmis, vitundar og umhverfis. Hann mátar sig við bygginar og ytri aðstæður, en fer líka innávið – inn í rými líkamans, tungumálsins og tilfinninganna.

Mynd: RÚV / RÚV
„Því meira flækjustig – því skemmtilegra.“

Listamennirnir sem fjallað verður um í næstu þáttum og koma til  með að taka þátt í sýningunni í Marshall-húsinu eru eftirfarandi:

Hrafnhildur Arnardóttir og Ingólfur Arnarson ; Hildur Bjarnadóttir og Helgi Þórsson ; Ólafur Sv. Gíslason og Inga Svala Þórsdóttir og Wu Shanzhuan ; Egill Sæbjörnsson og Rebecca Erin Moran ; Eygló Harðardóttir og Ragnar Kjartansson.

Opnun er ný íslensk heimildarþáttaröð í umsjón Dorothée Kirch og Markúsar Þórs Andréssonar, sem fjallar um samtímamyndlist á Íslandi. Í fyrsta þættinum, sem sýndur verður í kvöld kl. 20.05, kynnumst við listamönnunum Elínu Hansdóttur og Haraldi Jónssyni. Þau vinna bæði verk fyrir ákveðin rými og listin mótast þannig af umhverfinu. 

Tengdar fréttir

Myndlist

Öskubuskuhúsið úti á Granda

Myndlist

Gömul síldarbræðsla hýsir nú listastarfsemi

Myndlist

Myndlistin er orustuvöllurinn

Myndlist

Einfaldar tæknibrellur skapa undraheim