Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Þverpólitísk sátt um að afnema bókaskatt

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV

Þverpólitísk sátt um að afnema bókaskatt

26.09.2017 - 20:59

Höfundar

Þverpólitísk sátt er um að afnema beri virðisaukaskatt af bókum eða svokallaðan bókaskatt. Allir þingmenn Framsóknarflokksins auk Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar eru meðflutningsmenn að frumvarpinu ásamt þingmönnum úr öllum flokkum.

Frumvarpið var lagt fram á Alþingi í dag en það fyrnist þar sem það fær ekki afgreiðslu enda stendur til að ljúka þingstörfum í kvöld.   

Lilja segir á Facebook-síðu sinni að það komi ekki sök. Myndast hafi þverpólitísk sátt um frumvarpið og það verði því auðvelt að hrinda frumvarpinu í framkvæmd á næsta þingi.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti á bóksölu hafi verið tæpar 354 milljónir króna á síðasta ári.  „Gera má ráð fyrir að á móti lækkun tekna ríkissjóðs vegna afnáms virðisaukaskatts af bóksölu muni önnur jákvæð hagræn áhrif koma fram eins og aukin velta í bókaútgáfu sem mun skapa fleiri störf í samfélaginu,“ segir í greinargerðinni.

Afnám virðisaukaskatts á bækur hefur lengi verið eitt helsta baráttumál bókaútgefanda. Egill Örn Jóhannsson, formaður félags bókaútgefanda, sagði meðal annars í samtali við RÚV fyrr á þessu ári að virðsaukaskattshækkunin gæti verið punkturinn yfir i-ið í því sem gæti orðið minningargrein íslenskrar bókaútgáfu.“