Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Þverpólitísk samstaða gegn ópíóíðafaraldrinum

25.09.2018 - 13:36
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Þingmenn allra flokka á Alþingi sammælast um að grípa þurfi til róttækra aðgerða til að stemma stigu við aukinni misnotkun sterkra verkjalyfja hér. Á fjórða tug hafa dáið á árinu vegna ofskömmtunar. Heilbrigðisráðherra fullyrðir að neyslurými opni í Reykjavík á næsta ári og að til greina komi að auka aðgengi að lyfinu naloxon, sem getur komið í veg fyrir að fólk deyi af of stórum skammti.

Þorsteinn óskaði eftir sérstakri umræðu

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, var málshefjandi í sérstakri umræðu á Alþingi í dag um ópíóíðafaraldurinn sem nú geysar á landinu. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var til andsvara.

Að minnsta kosti þrjátíu ungir fíklar hafa dáið á þessu ári vegna lyfjamisnotkunar og innlögum vegna misnotkunar ópíóíða á Vogi fjölgar stöðugt. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar hefur sagt að fíkn sé hættulegasti sjúkdómur samtímans og sá langalgengasti og banvænasti meðal ungs fólks. 

Ópíóðar, sem eru mjög sterk og ávanabindandi verkjalyf, skyld morfíni, eru banvænir í ofskömmtun. Faraldurinn sem geysað hefur í Bandaríkjunum undanfarin ár draga hátt í 80 þúsund manns til dauða þar í landi ár hvert. 

Fullviss um að samstaða náist meðal þingmanna

Þorsteinn undirstrikaði alvarleika málsins í ræðu sinni og lagði nokkrar spurningar fyrir ráðherra, meðal annars hvað hefði verið gert til þess að reyna að vinna bug á misnotkun ópíóíða hér og hverjir ættu að framfylgja breyttum reglugerðum um takmarkað aðgengi lyfja. Þorsteinn sagðist þess fullviss að ef vilji væri fyrir hendi mundi Alþingi sammælast um að auka fjárveitingar til þess að vinna bug á vandanum. 

„Ég get fullyrt að ef ráðherra mundi leggja fram við aðra umræðu að leggja fram aukafjármagn yrði það samþykkt,” sagði Þorsteinn. Hann ræddi einnig um þjónustusamning SÁÁ við ríkið og sagði mikilvægt að útvíkka hann. 

Þorsteinn sagðist ekki hafa óskað eftir umræðunni til þess að benda fingrum eða láta aðra axla ábyrgð, allur þingheimur bæri ábyrgð á ástandinu og því þyrftu þingmenn að taka höndum saman til þess að snúa þróuninni við. „Við eigum bara eitt líf,” sagði Þorsteinn áður enn hann lauk máli sínu. 

50 milljónir í neyslurými á næsta ári

Svandís sagði umræðuna mikilvæga og full ástæða væri til þess að bregðast við. Hún ræddi um nokkrar aðgerðir sem hefur nú þegar verið farið í vegna faraldursins, meðal annars skipun starfshóps sem leitaði leiða til að sporna við ofneyslu. Sá hópur skilaði af sér skýrslu í maí og voru lagðar þar fram nokkrar tillögur, meðal annars að takmarka aðgengi lyfja í umferð, efla eftirlit, upplýsa almenning, bæta greiningar og auka aðgang að öðrum úrræðum. Þá hafa verið haldnar vinnustofur um málefni barna sem glíma við neysluvanda, fleiri starfshópar skipaðir og breytingar verið gerðar á reglugerðum um ávísun lyfja. 

Nú væri búið að tryggja 50 milljónir króna til að gera neyslurými fyrir fíkla í Reykjavík á næsta ári, í samstarfi við Reykjavíkurborg og Rauða krossinn. Skaðaminnkun væri í algjörum forgangi. Hún sagði einnig að vert væri að kanna hvort bæta þurfi aðgengi að lyfinu naloxon, sem getur komið í veg fyrir ofskömmtun. Þá eru til skoðunar tillögur um að fjölga meðferðarúrræðum við ópíóíðafíkn og til stæði að samþykkja þær tillögur til að framboð þjónustunnar sé í samræmi við eftirspurn. 

Formaður velferðarnefndar vill fleiri úrræði

Fleiri þingmenn tóku til máls í umræðunni, meðal annars Halldóra Mogensen, þingmaður pírata og formaður velferðarnefndar, sem sagði stjórnvöld einblína um of á að takmarka aðgengi að lyfjum, sem mundi hækka götuverð og þröngva einstaklingum í skaðlegar aðstæður. Fíklar þurfi að hafa val um meðferðarleið og geti náð bata á eigin forsendum. Hún ræddi einnig um mikilvægi þess að auka aðgengi að naloxon og fíkn þurfi að nálgast á grundvelli mannúðar en ekki refsingar og frelsissviptingar. 

Sorglegur veruleiki 

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði það sorglegan veruleika að karlmenn á hans aldri ljúgi að læknum til þess að fá lyf og noti þau síðan til þess að kynlíf hjá ungum stúlkum og misnoti fíkn þeirra. Ásmundur meðferðarheimilin gegna lykilhlutverki og hvatti þá þingmenn sem hafi notað þjónustu SÁÁ að standa vörð um samtökin. 

Náttúruhamfarir hefðu kallað á neyðarfund

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði að ef svona dánartíðni meðal ungs fólks væri vegna annarra þátta en fíknar, og nefndi þar náttúruhamfarir sem dæmi, væri ríkisstjórnin á neyðarfundi núna. Hún sagði að umræður væru ekki nóg, heldur þyrfti að láta verkin tala og taka málin fastari tökum. 

Vill þjóðarsátt

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, spurði hvort þingmenn gætu myndað þjóðarsátt um að taka á málinu. Þá vakti hún athygli á fyrirhugaðri lokun göngudeildar SÁÁ á Akureyri og sagði að ráðherra þyrfti að beita sér fyrir því að svo yrði ekki. Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði einnig mikilvægt að halda þeirri starfsemi áfram.