Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Þverpólitísk nefnd skoði lög um fiskveiðar

20.04.2017 - 06:57
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegsráðherra, hyggst skipa þverpólitíska nefnd sem ætlað er að finna fyrirkomulag varðandi gjaldtöku í sjávarútvegi. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Haft er eftir Þorgerði að eitt það helsta sem skoða þurfi í þessu sambandi sé hvort og þá hvernig megi tryggja að fyrsta grein laga um fiskveiðistjórnun virki eins og til sé ætlast. Í henni er m.a. kveðið á um að lögin eigi að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu.

Þorgerður staðfestir í samtali við blaðamann Fréttablaðsins að framganga HB Granda á Akranesi síðustu vikur hafi degið fram mikilvægi þess að hugað sé að þessum þætti löggjafarinnar, og segir að þetta sé til skoðunar í stjórnkerfinu. Hún vísar því þó á bug að verið sé að íhuga breytingar á lögunum vegna þessa.

Um eða yfir 100 manns missa vinnuna hjá HB Granda á Skaganum fylgi fyrirtækið hugmyndum sínum um að færa bolfiskvinnslu frá Akranesi til Reykjavíkur. Akranesbær og Faxaflóahafnir hafa boðist til að leggja út í milljarðaframkvæmdir á Akranesi svo að útgerðarrisinn haldi óbreyttum rekstri í bænum. Fyrirtækið, sem skilaði eigendum sínum 3,5 milljarða hagnaði á síðasta ári, 3 milljörðum minna en 2015, veltir nú fyrir sér tilboði bæjaryfirvalda.