Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Þúsundir milljarða í vígbúnað í fyrra

24.04.2014 - 13:34
Mynd með færslu
 Mynd:
Útgjöld til hernaðarmála í heiminum námu jafnvirði 195 þúsund milljarða króna í fyrra, að því er fram kemur í nýrri skýrslu sænsku friðarrannsóknarstofnunarinnar SIPRI. Vesturlönd hafa dregið úr sínum útgjöldum en í öðrum heimshlutum hafa þau aukist.

Útgjöld til hernaðarmála í heiminum námu jafnvirði 195 þúsund milljarða króna í fyrra, að því er fram kemur í nýrri skýrslu sænsku friðarrannsóknarstofnunarinnar SIPRI. Vesturlönd hafa dregið úr sínum útgjöldum en í öðrum heimshlutum hafa þau aukist.

Minni umsvif í Írak og Afganistan
SIPRI gefur á hverju ári út skýrslu um framlög ríkja heims til hernaðarmála. Í þeirri nýjustu kemur fram að í fyrra hafi framlögin alls numið 1.750 milljörðum dala, jafnvirði 195 þúsund milljörðum króna, og er það tæplega tveggja prósenta lægri upphæð en 2012. Það skýrist einkum af því að hernaðarútgjöld Bandaríkjanna drógust saman um tæp átta prósent á milli ára, ekki síst vegna heimkvaðningar herliðsins frá Írak í árslok 2012, minnkandi umsvifa í Afganistan og almenns niðurskurðar fjárveitingavaldsins.

Sama þróun virðist víðast hvar á Vesturlöndum en annars staðar í heiminum jukust hernaðarútgjöld um 1,8 prósent á milli ára. Kína, Rússland og Sádi-Arabía - ríkin þrjú sem verja mestu fé til varnar- og öryggismála á eftir Bandaríkjunum - eyddu öll meira í málaflokkinn í fyrra en 2012. Þessi þrjú ríki eru á meðal þeirra 23 sem hafa meira en tvöfaldað hernaðarútgjöldin frá 2004.

Sádar í vígbúnaðarkapphlaupi
Raunar skutust Sádar fram úr Bretum, Frökkum og Japönum í þessum efnum á síðasta ári en framlög þeirra til varnarmála jukust um 14 prósent, SIPRI telur það skýrast annars vegar af viðvarandi spennu í samskiptum við Íran og hins vegar ótta valdahafa í Ríad við ólgu heimafyrir. Þessi síðarnefnda skýring á einnig við smáríkið Bahrain við Persaflóa sem jók sín hernaðarútgjöld um 26 prósent, konungsfjölskyldan þar er afar illa þokkuð af sjítum, sem eru meirihluti þjóðarinnar.

Svipuð aukning á útgjöldunum varð í Írak þar sem ríkisstjórnin vinnur nú að því að byggja upp nýjan herafla. Upplýsingar um Sýrland, Íran og fleiri hervædd ríki Mið-Austurlanda voru ekki fáanlegar.

Olíugróði notaður til hernaðaruppbyggingar
Framlög til varnarmála jukust í Afríku um 8,3 prósent á milli ára. Alsír varð fyrsta Afríkuríkið til að verja meira en tíu milljörðum dala í slíkt á einu ári. Þá jukust hernaðarútgjöld Angóla um rúman þriðjung, það er nú það ríki Afríku sunnan Sahara sem eyðir mestu fé í vígbúnað en áður skipaði Suður-Afríka þann sess. SIPRI rekur útgjaldaukningu Alsírs og Angóla til vaxandi olíusölutekna.

Í Asíu ber Kína höfuð og herðar yfir önnur ríki hvað hernaðarútgjöld varðar. Talið er að þau hafi numið 188 milljörðum dala í fyrra, jafnvirði 21.000 milljarða króna, og jukust þau um 7,4 prósent á milli ára. Vaxandi spenna í samskiptum við grannríkin, til dæmis Japan, er skýringin á því. Ekki þarf því að koma á óvart að japanska ríkisstjórnin varði líka meira fé til varnarmála í fyrra en 2012 og er það í fyrsta sinn í mörg ár sem útgjöldin hækka á milli ára.

Í Asíu jukust þó hernaðarútgjöldin hvergi meira en í Afganistan. Líkt og í Írak byggja stjórnvöld þar upp nýjan her og því jukust framlög til varnarmála um 77 prósent í fyrra samanborið við árið á undan.

[email protected]