Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Þúsundir flúnar og enn fleiri í viðbragðsstöðu

10.02.2019 - 06:31
Erlent · Hamfarir · - · Nýja Sjáland · Eyjaálfa · Umhverfismál · Veður
Mynd með færslu
Hér má glöggt sjá, hversu nærri eldurinn er kominn ystu húsum í bænum Wakefield Mynd:
Allir 3.000 íbúar bæjarins Wakefield á norðurodda Suðureyju Nýja Sjálands hafa fengið öruggt skjól fjarri heimilum sínum og nágrannar þeirra í borginni Nelson búa sig undir hið versta vegna einhverra mestu skógarelda sem geisað hafa í landinu áratuga skeið. Rúmlega 50.000 manns búa í Nelson en í allt eru heimili um 70.000 manns í Tasman-héraði í hættu vegna eldanna.

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í héraðinu, þar sem eldurinn hefur brunnið í sex daga og sviðið á þriðja þúsund hektara kjarr- og skóglendis. Hann logar nú nærri bæjarmörkum Wakefield og og slökkviliðsstjórinn á svæðinu segir það að líkindum ráðast í dag, hvort bærinn verði eldinum að bráð eða ekki. Vindaspá er óhagstæð og gefur lítið tilefni til bjartsýni.

Lengra er í bæinn Wilson, en þar er viðbúnaður engu að síður mikill, enda hefur ekkert gengið að hemja útbreiðslu eldsins og gróður og svörður skraufaþurr þar allt um kring. Leita þarf aftur til ársins 1955 til að finna meiri gróðurelda á Nýja Sjálandi, samkvæmt þarlendum fjölmiðlum. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV