Þúsundir barna deyja vegna loftmengunar

epa04955361 A general view of the Gardens by the Bay (L) and the Marina Bay Sands integrated resort (R) shrouded by haze as seen from the Singapore Flyer in Singapore, 29 September 2015. The National Environment Agency of Singapore today reported high
Mikil mengun var í Síngapúr 29. september frá eldunum í Indónesíu. Mynd: EPA
Um 300 milljón börn búa við svo hættulega mengun að hún getur valdið alvarlegum líkamlegum skaða. Þar á meðal getur mengunin haft áhrif á þróun heilans. Þetta kemur fram í skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF.

Nærri eitt af hverju sjö börnum í heiminum andar að sér sex sinnum óhreinna lofti en talið er heilsusamlegt. Sagt er í skýrslunni að loftmengun sé helsta ástæða barnsláta í heiminum.

Skýrslan er birt viku áður en árleg loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna fer fram. Fulltrúar ríkja SÞ koma saman í Marokkó 7. til 18. nóvember. UNICEF hvetur til þess að ræddar verði leiðir til þess að minnka loftmengun í þeim ríkjum þar sem hún er mest. Um 600 þúsund börn undir fimm ára aldri eru sögð láta lífið af völdum loftmengunar á hverju ári. Anthony Lake, stjórnarformaður UNICEF, segir meningunina ekki aðeins skaða lungun í börnum, heldur geti hún haft áhrif á þróun heilans og þannig skaðað framtíð þeirra. Ekkert samfélag geti litið framhjá loftmengun.

UNICEF notar gervihnattamyndir til að sýna fram á að tveir milljarðar barna búi við slæm loftgæði miðað við þær línur sem eru lagðar af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni WHO. Útblástur bifreiða, jarðolía, ryk og brennandi rusl eru meðal helstu mengunarvalda. Verstu svæðin eru í Suður-Asíu, Afríku, Austur-Asíu og Kyrrahafssvæðinu.

Börn eru viðkvæmari en fullorðnir fyrir loftmengun vegna þess að líffæri þeirra og ónæmiskerfi eru enn að vaxa. Börn sem búa við fátækt eru viðkvæmari fyrir fylgikvillum loftmengunar. Heilsufar þeirra er lakara og þau hafa minni aðgang að heilbrigðisþjónustu.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi