Þúsund manns á fjöldahjálparstöðvum á einum mánuði

13.01.2020 - 22:23
Fjöldahjálparmiðstöðin í Reykjanesbæ 12. janúar 2020
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Á einum mánuði hafa um þúsund manns nýtt sér fjöldahjálparmiðstöðvar sem Rauði krossinn hefur sett upp víða um land. Hjálparmiðstöðvarnar eru alls átján talsins og hafa um tvö hundruð manns veitt þar aðstoð.

Í gærkvöld leituðu yfir 600 manns í fjöldahjálparstöð Rauða krossins í Reykjanesbæ og allt að 150 gistu þar á beddum. Ekki hafa fleiri leitað aðstoðar í fjöldahjálparstöð frá því í Vestmannaeyjagosinu 1973.

Fjöldahjálparmiðstöð hefur oftast verið sett upp á Kjalarnesi undanfarinn mánuð, þrisvar sinnum, sem var vegna lokunar þjóðvegarins í óveðri, tvívegis á Selfossi og á þrettán stöðum til viðbótar í flestum landshlutum.

Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins segir þetta áður óþekkt álag en tvö hundruð sjálfboðaliðar og starfsfólk Rauða krossins hafi verið fólki til aðstoðar. 

„Þetta er mikið til sama fólkið á sömu svæðunum þannig að það er alveg komin smá þreyta í mannskapinn,“ segir Brynhildur. Langt sé síðan Rauði krossinn hafi verið í jafnviðamiklum aðgerðum.

Brynhildur segir að þessi mikli fjöldi skýrist fyrst og fremst af tíðum óveðrum undanfarnar vikur enda felist aðstoðin fyrst og fremst í þjónustu við þá sem ekki komast leiðar sinnar vegna veðurs en einnig hafi verið settar upp fjöldahjálpastövar í kjölfar slysa, þar sem fulltrúar Rauða krossins veita áfallahjálp og andlegan stuðning.

„Við erum einn hlekkur af almannavörnum og tökum við þegar björgunarsveitirnar eru búnar að ljúka sínu hlutverki,“ segir Brynhildur. Mjög mikilvægt sé fyrir fólk að fá húsaskjól þegar ekki sé ferðafært og vegir lokaðir en einnig er mikilvæg aðstoð veitt í kjölfar slysa.

 

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi