Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Þúsaldarkynslóðin kortlögð í skáldsögum

Mynd: Forlagið/Sinfóníuhljómsveit  / Forlagið/Sinfóníuhljómsveit

Þúsaldarkynslóðin kortlögð í skáldsögum

29.07.2018 - 10:00

Höfundar

Ungu rithöfundarnir Jónas Reynir Gunnarsson og Arngunnur Árnadóttir náðu að fanga ákveðinn tómhyggjulegan kjarna þúsaldarkynslóðarinnar í sínum fyrstu skáldsögum, Millilendingu og Að heiman. Þau ræddu bækurnar, sköpunina, Reykjavík og smæðina í Hve glötuð er vor æska, bókmenntaþætti Rúv núll.

Bækurnar eru þeirra fyrstu skáldsögur en Arngunnur hafði áður gefið út ljóðabók í flokknum Meðgönguljóð árið 2013. Hún segir að það hafi verið mikill munur á því að gefa út ljóðabók og síðan skáldsögu sem kemur út að hausti. „Allt annað að gefa út í jólabókaflóðinu, miklu meiri hasar.“ 

„Ég gaf bara út allt á sama tíma,“ segir Jónas Reynir en á einum mánuði fyrir síðustu jól komu út þrjár fyrstu bækurnar eftir hann, ljóðabækurnar Leiðarvísir um þorpið og Stór olíuskip, og svo skáldsagan Millilending. „Þetta var mjög spes tilfinning. Manni líður eins og þetta sé einhver tilkynning um hvernig maður er.“ Arngunnur er klarínettuleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands, hvernig gengur henni að samræma það skrifunum? „Það gengur svona misvel. Ég var alveg að keyra mig dálítið út þegar ég var að skrifa skáldsöguna meðfram þessari fullu vinnu. Þannig ég ákvað í vetur að passa þolmörkin. Hef verið að vinna í ljóðum en langar að skrifa aðra skáldsögu. En af fenginni reynslu langar mig að taka smá speis í tíma til að gera það.“

Myndi sjá eftir tímanum

Jónas Reynir helgar sig eingöngu skriftunum en hann segir þó að varla sé hægt að lifa á þeim eingöngu. „Eiginlega ekki, þó maður gefi út þrjár bækur í einu eins og ég. Maður fær ekki há höfundalaun nema maður selji ótrúlega mikið. Ég er bara svo góður við sjálfan mig að þetta er sjálfselska við mig að vera ekki í borgaðri venjulegri vinnu meðfram. Ég myndi sjá eftir tímanum ef ég myndi eyða honum í eitthvað annað en að skrifa.“

Bæði Millilending og Að heiman fjalla um stelpur sem eru rétt rúmlega tvítugar og nokkuð týndar og reikandi í lífinu, eru að koma heim til Íslands eftir dvöl erlendis, en finnst þær ekki eiga heima þar lengur. Á pappír virka aðalpersónurnar svipaðar en þær eru þó mjög ólíkar, og maður myndi ekki ímynda sér að þær ættu skap saman. Báðar eru þær þó sannfærandi lýsing á tíðaranda og hinni svokölluðu þúsaldarkynslóð, sem hefur mikið verið gagnrýnd fyrir aumingjaskap. Var þetta eitthvað sem þau höfðu í huga þegar þau skrifuðu bækurnar? „Ekki ég,“ segir Jónas Reynir. „Ég á erfitt með að hugsa samfélagslega breitt. Þessiu karakterar, kynslóðin og staðurinn í samfélaginu bara var þarna. Fannst ég ekki vera með eitthvað meðvitað „take“ á það,“ bætir hann við. 

Fjandsamlegt umhverfi

Arngunnur segir Maríu úr Millilendingu koma úr mjög áhugaverðum jaðarheimi. „Svona hass-hausa-nörd sem er í félagsskap sem er alveg að fara yfir grensuna, yfir í að verða alvöru fíklar.“ Unnur í Að heiman eigi hins vegar meira heima í hipster-kreðsum, þrátt fyrir að hún myndi að sjálfsögðu aldrei viðurkenna það sjálf. „Hún er ein af fjölmörgum sem flytja til Berlínar, en upplifir umhverfi sitt mjög fjandsamlegt og er mjög í nöp við það. Fjallar um hvernig öll reynsla á að vera svo einstök og spes, en endar á því að vera rosalega almenn.“ Jónar Reynir og Arngunnur vonast bæði til að koma út bók á þessu ári. „Ég er að klára skáldsögu núna sem á að koma út í haust,“ segir Jónas Reynir. „Ég er að vinna í ljóðum núna. En ætla samt að skrifa aðra skáldsögu bráðum,“ segir Arngunnur.

Þorvaldur Sigurbjörn Helgason ræddi við Jónas Reyni Gunnarsson og Arngunni Árnadóttur í þriðja þætti af Hve Glötuð er vor æska? Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni í Spilaranum

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Spíttskáldin og strætóskáldin

Bókmenntir

Íslenskur djammveruleiki í skáldsögu

Bókmenntir

„Ég á mér ekkert líf annað en að skrifa“

Menningarefni

Hvorki þar né hér