Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Þurfum eitthvað fastmótað til að taka afstöðu

10.12.2016 - 18:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, vill ekki gefa upp hvort hún sé bjartsýn á að flokkarnir fimm fari í formlegar stjórnarmyndunarviðræður.„Við skulum sjá til,“ segir hún. Nokkuð ljóst sé að ný ríkisstjórn þurfi að afla tekna - ekki sé hægt að hunsa áskorun 86 þúsund Íslendinga um uppbyggingu heilbrigðiskerfisins.

Flokkarnir fimm hittust á fundi í dag og ætla að ræða saman aftur á morgun. Þingflokkarnir verða síðan kallaðir saman annað kvöld og á mánudag skýrist það hvort þeir hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður.

Katrín segir að fundurinn í dag hafi verið góður og gagnlegur - eins og reyndar allir fundir flokkanna. „En við erum samt stödd á þeim stað að við erum ekki komin með neinar fastmótaðar tillögur á borðið og það fer auðvitað að líða að því að við þurfum að fá eitthvað slíkt til þess að geta tekið afstöðu til þess hvort þessar viðræður verði formlegar eða ekki.“

Katrín segir að VG hafi lagt áherslu á umbætur í heilbrigðis-og menntamálum. Staðan sé þannig að það þurfi að afla tekna en með ábyrgum hætti vegna þenslu. „En við þurfum að svara ákalli 86 þúsund Íslendinga um uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu.“ Það sé þó ótímabært að svara því hvort flokkarnir komi sér saman um hækkun skatta - fyrst verði þau að hafa eitthvað fast í hendi. Hún vill ekkert segja hvort hún sé bjartsýn á framhaldið. „Við skulum sjá til.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV