Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Þurfum að vera skapandi og bjartsýn

Mynd: hallaharðar  / hallaharðar

Þurfum að vera skapandi og bjartsýn

02.02.2018 - 14:20

Höfundar

Timothy Morton er einn af þekktustu fræðimönnum samtímans á sviði hugvísinda og hefur verið kallaður spámaður sem sameinar listir og vísindi. Víðsjá spjallaði við Sigrúnu Hrólfsdóttur, deildarforseta myndlistardeildar Listaháskólans, og Björn Þorsteinsson, heimspekiprófessor, um Morton, en hann flytur erindi í Safnahúsinu í dag, 2. febrúar.

Á sýningu Museum of Modern Art í New York um Björk Guðmundsdóttur árið 2015 voru ýmis forvitnileg gögn sem tengdust lífi söngkonunnar. Á einum veggnum var að finna bréfaskriftir á milli hennar og breska heimspekingsins Timothy Mortons.

Upphaf bréfaskriftanna hljómaði einhvern veginn svona: „Hæ Timothy. Mig hefur lengi langað til að skrifa þér þetta bréf….“ Björk biður heimspekinginn í framhaldinu um aðstoð við að skilgreina verkin sín, við að móta með orðum hvers kyns list hún væri að búa til. Ekki bara fyrir sjálfa sig, heldur líka fyrir vini sína og hlustendur. Timothy Morton er einn af þekktustu fræðimönnum samtímans á sviði hugvísinda og hefur getið sér gott orð fyrir skrif sín um náttúruna á tímum mannaldar og póst-húmanisma, en Björk vissi ekki þegar hún hóf bréfaskriftirnar við Morton að hann væri auk þess einn af hennar einlægustu aðdáendum, að hann hefði lengi tengt við listsköpun hennar og hugmyndir hennar um listina, lífið og náttúruna. Að tónlist hennar hefði haft á hann djúpstæð áhrif, að hann tengdi við skynjun hennar á veröldinni.

Hugmyndir og heimspekileg skrif Mortons fjalla að einhverju leyti um meðvitundina um tengsl okkar við náttúruna. Meðvitundina um það að við erum öll á einhvern hátt tengd. Að engin vera, og ekki heldur efni eða hlutur, á jörðinni sé æðri öðrum.

Morton er prófessor við Rice University í Houston en hann vinnur þvert á fög og neitar að flokka hugsanir eftir kerfum sem við höfum búið okkur til. Hann hefur mikla trú á listinni og sköpunargáfunni, og hefur undanfarið unnið mikið með Ólafi Elíassyni. Hans Ulrich Olbrist, einhver mesti áhrifamaður alþjóðlegu myndlistarsenunnar, kallar hugmyndir hans verkfærakassa til að vinna með flókinn samtíma okkar.

Morton hefur verið kallaður hvorki meira né minna en spámaður okkar tíma. En hvað hefur hann að segja?

„Morton er ákaflega gott dæmi um heimspeking því heimspekingar eiga að vera í glímu við samtímann og þau vandamál sem blasa við þar,“ segir Björn Þorsteinsson, heimspekiprófessor. „Vissulega er einhver ögurstund í mannskynssögunni fram undan, og við verðum að reyna að skilja hvað í því felst og það eru menn eins og Morton sem hjálpa okkur að takast á við það.“

„Morton hefur mjög fjölbreyttan áheyrendahóp sem er mjög gott því við þurfum einmitt á fólki að halda sem getur talað þvert á deildir,“ segir Sigrún Hrólfsdóttur, deildarforseti myndlistardeildar Listaháskólans.

„Hann er einn af upphafsmönnum kenningar sem kallast Object Oriented Onthology, sem hefur verið þýtt sem hlutmiðuð verufræði. Þeir sem aðhyllast þá heimspekikenningu hafna ýmsum aðgreiningum, til dæmis hugveru og hlutveru, menningar og náttúru, og vilja meina að allt sé í einhverjum skilningi hlutur sem hefur áhrif í þessari symbíósu sem við svömlum um í, þetta lífhvolf sem er okkar heimili.“

„Listin getur hjálpað okkur að koma auga á það sem er nýtt. Við þurfum að skapa framtíðina og listin hefur þann eiginleika að geta búið til sýnir sem eru ekki 100% rökstuddar hugmyndir, heldur sýnir sem geta verið inn í framtíðina. Við getum ekki alltaf bara hugsað á greinandi hátt, og látið teikna upp fyrir okkur hversu hryllileg staðan sé, heldur þurfum við að vera skapandi og vera bjartsýn.“

Víðsjá spjallaði við Sigrúnu Hrólfsdóttur, deildarforseta myndlistardeildar Listaháskólans, og Björn Þorsteinsson, heimspekiprófessor, um heimspeki Mortons, en hann flytur erindi í Safnahúsinu í dag, 02.02.2018.