Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

„Þurfum að kalla unga fólkið til okkar“

02.09.2015 - 16:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins segir að fylgi flokksins, samkvæmt niðurstöðum þjóðarpúls Gallups, sé óviðunandi. Fylgið hefur ekki mælst minna síðan í nóvember 2008. Þinflokksformaður Samfylkingarinnar segir að fylgistap í könnunum sé óskiljanlegt.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að flokkurinn þurfi að fara yfir stöðu sína og finna út hvernig hanni nái til kjósenda á ný. Það sé mikið áhyggjuefni að flokkurinn nái ekki til yngri kjósenda. Stuðningur við flokkinn meðal yngstu kjósendanna er einungis 12%: „Það er alveg ljóst að jafnt við sem aðrir þurfum að hlusta á og kalla unga fólkið til okkar. Ekki segja því hvað við ætlum að gera fyrir það heldur óska eftir því að það segi við okkur hvernig það vilji að við vinnum til þess að við getum náð athygli þeirra.“

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði á vef RÚV í gær að niðurstaðan þjóðarpúlsins sýndi djúpstætt vantraust í garð hefðbundinna stjórnmálaafla. Þetta fylgi sé óviðunandi. Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, tekur í sama streng og segir niðurstöðuna óskiljanlega. Flokksins bíði mikið verk: „Þetta á auðvitað fyrst og fremst að verða okkur hvatning til að koma öflug inn í þingið í vetur, reyna að endurvinna traust og stuðning þess fólks sem við höfum verið að missa á þessu ári.“