Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Þurfum að horfast í augu við breytta tíma

22.11.2015 - 13:18
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íslendingar þurfa að þora að horfast í augu við það að innan raða öfgafullra íslamista er hópur fólks sem er tilbúinn til að drepa þá sem ekki gangast undir lífsýn hans. Þetta segir forseti Íslands. Hann segir mikilvægt að gjalda varhug við því að Sádi-Arabía hafi afskipti af trúfélögum á Íslandi.

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands var gestur Hallgríms Thorsteinssonar á Rás tvö í morgun. Þar ræddi hann meðal annars hryðjuverkaógnina í heiminum, sem nú er í brennidepli eftir árásina í París í síðustu viku. Ólafur Ragnar segir þetta ekki nýja ógn en árásin í París hafi markað ákveðin þáttaskil. „Eðli þeirra og umfang að aðferðirnar voru þannig að nú áttuðu menn sig á því að nú var þetta, kannski ekki nýr tími, en það dugðu ekki lengur þær aðferðir og þær umræðuáherslur sem áður höfðu verið ríkjandi,“ segir Ólafur Ragnar. „Og hvort sem að frjálslyndum öflum svokölluðum líkar það betur eða verr, þá er það núna orðið viðfangsefni kjörinna fulltrúa víða í Evrópu, að koma í veg fyrir að venjulegt fólk sé drepið,“ segir hann.

Ólafur Ragnar segir mikilvægt að þjóðin fari ekki í skotgrafir heldur horfist í augu við vandann og ræði hann á yfirvegaðan hátt. „Þá verðum við líka að hafa þor og kjark til þess að horfast í augu við þessa staðreynd. Að innan íslam er hópur byggður á öfgakenndri túlkun þeirrar trúar, sem telur það réttlætanlegt að drepa alla, hvort sem þeir eru Múhameðstrúarmenn eða Vesturlandabúar eða Kristnir, sem ekki vilja gangast undir hin algjöru, óskorðuðu, yfirþyrmandi lög íslam.“

Spyr hver sé ástæða afskipta Sádi-Arabíu 

Ólafur Ragnar segir það áhyggjuefni að Sádi-Arabía hafi afskipti af trúfélögum á Íslandi. Hann tók þar sem dæmi að á fundi sínum með nýjum sendiherra Sádi-Arabíu á Norðurlöndum hafi sendiherrann lýst því yfir að Sádi-Arabía hefði ákveðið að setja 100 milljónir í að byggja mosku á Íslandi. „Hverjir eru hagsmunir og ástæður þess að það ríki sem hefur stutt - umfram öll önnur ríki - hið öfgafulla íslam, er nú farið að hafa afskipti af því hér á Íslandi, af því hvernig trú er iðkuð hér á Íslandi? Og þegar menn spyrja: „Snertir þetta okkur eitthvað?“ Þá svara ég með þeim hætti að benda á þá staðreynd að forseti lýðveldisins, borgaryfirvöld í Reykjavík, forystumenn þessara safnaða á Íslandi, allir þessir aðilar hafa nú orðið á undanförnum mánuðum með einum eða öðrum hætti þurft að hafa afskipti af því sem Sádi-Arabía er að reyna að gera á Íslandi. Og það er nýr veruleiki fyrir okkar litla land,“ segir Ólafur Ragnar.

Hann bendir á að Sádi-Arabía hafi meðal annars fjármagnað innrætingu öfgafullra íslamista. „Sádi-Arabía hefur styrkt moskur, skóla, þar sem ræktað hefur verið og kennd og ungir karlmenn aldir upp í hinni öfgafullu útgáfu af íslam.“ Ennfremur segir Ólafur Ragnar að skjöl sendiráðs Sádi-Arabíu, sem birt voru á vefsíðu Wikileaks, gefi ekki rétta mynd af fundi hans með sendiherranum. „Svo birti sendiráðið einhverja furðufrásögn, sem kom svo á Wikileaks, um þessar samræður mínar, sem eru meira og minna uppspuni og ýkjur,“ segir Ólafur. Hann hafi sjálfur vakið athygli á boði sendiherrans um fjárhagslegan stuðning við trúfélög á Íslandi, og segir mikilvægt að velta fyrir sér hver tilgangur Sádi-Arabíu sé með því að skipta sér af trúmálum hérlendis.