Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Þurfum að haga seglum eftir vindi

17.08.2015 - 13:00
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur falið Byggðastofnun að meta áhrif ákvörðunar Rússa um að setja innflutningsbann á Ísland. Hann segir að íslenskt samfélag, 330 þúsund manns, þurfi að haga seglum eftir vindi.

Hann segir mikilvægt að vega saman ákvarðanir vestrænna samfélaga annars vegar og hins vegar 70 ára viðskiptasögu við Rússa áður en frekari ákvarðanir séu teknar um stuðning við viðskiptaþvinganir.

„Það er auðvitað mikilvægt fyrir okkur að taka undir með þeim aðgerðum og skoðunum sem kollegar okkar í öðrum vestrænum samfélögum hafa gert. Á sama tíma þá þurfum við að horfa til þess að við eigum 70 ára viðskiptasögu við Rússa,“ segir Siguður. Hann segir 330 þúsund manna samfélag ávallt þurfa að haga segli eftir vindum - hagsmunir þjóðarinnar séu ávallt í fararbroddi. 

Sigurður Ingi vill ekki gefa afgerandi svar varðandi hvort rétt sé að endurskoða stuðning við viðskiptaþvinganir gegn Rússum. 

„Á þessum tímapunkti finnst mér rétt að allir haldi ró sinni,“ segir Sigurður Ingi.

„Það hefur komið fram að þetta gæti haft verulegt tjón á einstökum svæðum á landinu. Þess vegna hef ég falið Byggðastofnun að gera úttekt á áhrifum þess. Sú úttekt liggur ekki fyrir. Aðalatriðið núna er að allir haldi ró sinni og fari yfir þá heildarhagsmuni sem í húfi eru.“