Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þurftu ekki að ráða þann hæfasta í Súðavík

11.03.2019 - 17:10
Mynd með færslu
Súðavík við Álftafjörð í Ísafjarðardjúpi Mynd: Jóhannes Jónsson
Sveitarstjórn Súðavíkurhrepp samþykkti á föstudag að ráða Braga Þór Thoroddsen, lögfræðing, í stöðu sveitarstjóra Súðavíkurhrepps, þótt Hagvangur, sem að sá um ráðninguna, hafi talið Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi alþingismann, hæfasta umsækjandann.

Trúnaður milli sveitarstjórnar og sveitarstjóra

Sveitarstjórnir þurfa ekki að ráða hæfasta umsækjandann.  Samkvæmt niðurstöðu umboðsmanns Alþingis síðasta haust getur sveitarstjórnum verið heimilt að líta til sjónarmiða við ráðningu sveitarstjóra sem að almennt teljast ekki málefnaleg. Almennt sé gengið út frá því að starf framkvæmdastjóra sveitarfélags sé pólitískt trúnaðarstarf og sveitarstjórn því heimilt að byggja ákvörðun sína á sjónarmiðum af pólitískum toga og trausti. Guðjón Bragason, lögfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, er á sama máli og segir ástæðuna byggja á því að það þurfi að ríkja trúnaður á milli sveitarstjórnar og sveitarstjóra. Í niðurstöðu umboðsmanns er þó tekið fram að sveitarfélög verði að gæta þess að meðferð umsókna sé í samræmi við þau sjónarmið sem koma fram í auglýsingu. 

Kusu milli þriggja umsækjenda

Meirihluti sveitarstjórnar Súðavíkuhrepps vildi kjósa á milli þeirra þriggja umsækjenda sem að Hagvangur taldi hæfasta og voru bæði Bragi Þór og Kristinn í þeirra hópi, Kristinn hlaut tvö atkvæði en Bragi Þór þrjú.