Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þurftu að stöðva báða ofna í kísilveri PCC

25.11.2019 - 15:45
Innlent · Norðurland · PCC
default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Undanfarna daga hafa starfsmenn í kísilveri PCC á Bakka lent í vandræðum með búnað í verksmiðjunni og hefur þurft að slökkva á báðum ofnum hennar þess vegna. Þegar slökkt var á ofnunum stíflaðist rykhreinsivirki verksmiðjunnar.

Þetta kemur fram á Facebook síðu PCC Bakki Silicon. Þar segir að þessi vandræði hafi byrjaði um miðja síðustu viku þegar stoðkerfi ljósbogaofnanna hafi hætt að virka almennilega.

Við það hafi þurft að slökkva á ofni 1, sem gengur undir nafninu Birta. Í kjölfarið hafi framleiðslan í ofni 2 (Boga) orðið óstöðug og því hafi einnig þurft að slökkva á honum.

Við stöðvun ofnanna stíflaðist hreinsivirkið

„Þegar slökkt var á ofnunum þá lækkaði hitastigið í rykhreinsivirkinu og við það myndaðist raki sem leiddi til þess að kísilrykið varð klístrugt og stíflaði kerfið,“ segir jafnframt í Facebook færslunni. Það hafi kostað mikla vinnu að þrífa hreinsivirkið. Til að koma í veg fyrir að reykur safnaðist fyrir í verksmiðjunni hafi þurft að opna neyðarskorsteina, en við það leggur reyk frá verksmiðjunni.

Nú mun fullt afl vera komið á Birtu (ofn 1) og framleiðsla í honum eðlileg, en Bogi (ofn 2) á að fara í gang seinnipartinn á morgun.