Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Þurfi að hugsa dreifingu ferðamanna upp á nýtt

06.03.2017 - 09:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hóteleigandi á Austurlandi segir að á meðan opinberu fé sé markvisst varið í markaðssetningu á suðvesturhorninu, sitji aðrir landshlutar á hakanum. Lítill hvati til að byggja ný hótel fyrir austan geti valdið skorti á gistirými yfir sumarið á meðan allt sé tómt yfir veturinn.

Það hefur lengi verið rætt hve illa gengur að reka heilsársferðaþjónustu víða um land. Á Austurlandi vantar enn mikið upp á nýtingu gistirýma allt árið þótt ferðamannatíminn sé vissulega að lengjast.

„Verðið bara að finna upp á einhverju sniðugu“

Þráinn Lárusson, eigandi tveggja hótela á Fljótsdalshéraði, segir að fólki í ferðaþjónustu á Austurlandi finnist ekki passa að á meðan takmarka þurfi aðgang að fjölförnustu stöðum á suðvesturhorninu, skorti ferðamenn á sama tíma fyrir austan. „Það hefur verið farið út í markvissa markaðssetningu á Suður- og Suðvesturlandinu og þangað náttúrulega kemur fólk,“ segir Þráinn. „Svo heyrum við það núna, þegar verið er að ræða þetta um að það þurfi að fjölga ferðamönnum annars staðar á landinu. Þá segja þeir: Ja, þið verðið bara að finna upp á einhverju sniðugu.“

Þurfi að hugsa markaðssetninguna upp á nýtt

Og það sé ekki í lagi að veita opinberu fé í að stýra ferðamönnum á suma hluta landsins á meðan aðrir eigi bara að bjarga sér sjálfir. Yfirvöld ferðamála verði að hefja markaðssetningu á öðrum landshlutum af sama þunga. „Þannig að menn þurfa náttúrulega að hugsa þetta svolítið upp á nýtt. Menn þurfa að fara að stýra þessu, og þetta er ekkert annað, þessu er stýrt,“ segir hann.

Byggja ekki ný hótel fyrir þriggja mánaða vertíð

Og með þetta ójafna flæði ferðamanna sé lítill hvati til nýfjárfestingar. Til þess verði Austurland að fá stærri hlutdeild í vetrarmarkaðnum. Þetta skapi ákveðin hliðaráhrif sem ekki hafi verið reiknað með. „Við höfum reynt að fylgja eftir, til þess að taka við sumartraffíkinni hérna á Austurlandi. Þetta er að springa. Nú fer Austurland að verða mjög alvarlegur ventill yfir sumarið. En fjárfestingin við að byggja eitt hótel, sem er gríðarleg, þú gerir það ekki í dag fyrir þrjá mánuði,“ segir Þráinn. 

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV