Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Þurfa þúsundir starfsmanna í ferðaþjónustu

29.09.2015 - 11:34
Mynd með færslu
Myndin er úr safni. Mynd: Ben Andreas Harding - flickr.com
Flytja þarf inn þúsundir starfsmanna á næstu árum, til að mæta auknum fjölda ferðamanna. Þetta er mat greiningardeildar Arion banka. Sérfræðingur hjá deildinni segir það áhyggjuefni, hversu fáir Íslendingar mennti sig í ferðaþjónustutengdum greinum.

Greiningardeild Arion banka boðaði til fundar í morgun, þar sem farið var yfir þróun, stöðu og horfur í ferðaþjónustu á Íslandi. Anna Hrefna Ingimundardóttir, sérfræðingur í greiningardeild bankans, segir ljóst að ferðamönnum muni halda áfram að fjölga.

„Við erum að spá 20% fjölgun á næsta ári. Þannig að það gæti orðið ein og hálf milljón ferðamanna. Þetta er kannski svolítið bratt en við höfum iðulega vanspáð þessu og það er ekkert endilega betra að vanspá en ofspá. En þetta er auðvitað að því gefnu að innviðir nái að halda í við þessa fjölgun,“ segir Anna Hrefna.

Hvað með næstu ár þar á eftir?

„Það er ekki jafnmikil hlutfallsleg fjölgun þar á eftir. En við gætum náð 2 milljónum ferðamanna árið 2018.“

Anna Hrefna segir að ferðaþjónustan gæti verið að nálgast þolmörk. Keflavíkurflugvöllur sé til dæmis að verða of lítill, auk þess sem framlag hins opinbera til ferðaþjónustunnar þurfi að eflast.

„Svo er það vinnumarkaðurinn. Við teljum að við munum þurfa að flytja inn mörg þúsund störf fyrir ferðaþjónustu á næstu árum. Spá okkar er háð því að við náum því.“

Mennta Íslendingar sig nægjanlega mikið í ferðaþjónustutengdum greinum?

„Nei. Það virðist ekki vera mikil aukning í ásókn í slíkar greinar þótt það sé mikill skortur á starfsfólki þar. Og þetta var eitt helsta áhyggjuefni þeirra aðila sem við töluðum við í ferðaþjónustu, að það væri ákveðið menntasnobb í gangi. Og að fólk hefði bara ekki nógu mikinn áhuga á þessum greinum þrátt fyrir að gróskan sé kannski mest þarna. Þannig að þetta er vissulega áhyggjuefni.“

Hvað nýtingu hótelherbergja varðar segir Anna Hrefna að hún sé einstaklega góð.

„Nýting til dæmis í Reykjavík gerist ekkert mikið betri heldur en í fyrra. Þannig að það er ljóst að það er þörf fyrir þau hótelherbergi sem er verið að byggja.“ 

Hvernig er hótelnýtingin samanborið við aðrar borgir?

„Í fyrra var nýting hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu meiri heldur en í London og París. Og ég sá enga borg sem var með meiri nýtingu heldur en höfuðborgarsvæðið þannig að borið saman við aðrar borgir vorum við í fyrsta sæti í fyrra,“ segir Anna Hrefna.