Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Þurfa að semja um skuldir Iceland Airwaves

Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson - Canon Mark 1X-D

Þurfa að semja um skuldir Iceland Airwaves

18.02.2018 - 12:22

Höfundar

Endursemja þarf um skuldir upp á tugi milljóna króna vegna Iceland Airwaves. Ljóst er að þessar skuldir fást ekki allar greiddar upp en launakröfur verða þó í forgangi.

Tilkynnt var fyrir helgi að Sena Live hefði gengið frá kaupum á Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni af Icelandair og muni sjá um rekstur hátíðarinnar héðan í frá. Hátíðin hefur verið haldin árlega frá árinu 1999. Mikið tap var á hátíðinni 2016, eða 57 milljónir króna, og því var síðasta hátíð minni í sniðum þar sem reynt var að skera niður kostnað. Uppgjör á henni liggur ekki fyrir en samkvæmt upplýsingum frá Grími Atlasyni, sem hefur skipulagt hátíðina undanfarin ár, var tap á henni líka þó að það verði ekki í líkingu við tap fyrra árs.

Þó að hátíðin hafi verið seld Senu eru skuldirnar óuppgerðar, meðal annars við starfsmenn síðustu hátíðar. Þær urðu eftir í félaginu IA tónlistarhátíð, sem hefur rekið hátíðina undanfarin ár. Eggert B. Ólafsson lögmaður stjórnar IA segir að uppgjör launa verði í forgangi. Ekki sé búið að gera þau upp en það verði gert. Hins vegar séu samningaviðræður nú í gangi um aðrar skuldir, til að fá þær færðar niður. Eggert vill ekki gefa upp fjárhæð þessara skulda, en ljóst sé að þær nemi tugum milljóna. Tilgangurinn sé að skilja við málin eins vel og hægt er. Það er því ljóst að skuldirnar verða ekki að fullu greiddar því ef ekki semst þarf félagið IA að fara í nauðarsamninga, og mögulega gjaldþrotameðferð.