Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Þurfa að fá svör um flóttamenn sem fyrst

15.09.2015 - 12:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mikilvægt er að svör fari að berast frá stjórnvöldum um hvernig Ísland ætli að bregðast við flóttamannavandanum, segir sviðsstjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Ekkert mælir gegn því að tekið sé á móti flóttamönnum til landsins í lotum, segir sviðsstjóri hjá Rauða krossinum.

Atli Viðar Thorstensen, starfandi sviðsstjóri hjálpar- og mannúðarsviðs Rauða krossins á Íslandi, bendir á að eftir að ákveðið hefur verið að taka á móti flóttamönnum taki við langt ferli.

„Það getur tekið flóttamannastofnun tvo til fjóra, og jafnvel fimm mánuði, að koma fólki hingað til lands, því það þurfa að koma að fleiri aðilar. Og á meðan býr fólk við afar slæman aðbúnað, og jafnvel í einhvers konar hættu. Þannig að það er mikilvægt að það fari að koma einhver svör þannig að fólk á Íslandi viti hver ætlun stjórnvalda er í þessum málum.“

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra vildi fyrir ríkisstjórnarfund í morgun ekki gefa út nákvæmlega hvenær svör ættu að liggja fyrir. Hann gerði þó frekar ráð fyrir því að niðurstaðan yrði ljós eftir tvær til þrjár vikur en ítrekar að hann vilji heldur að nefndin vandi sig en flýti sér. 

Atli Viðar segir mikilvægt að vanda vel til verka, en það sé líka hægt að horfa til reynslunnar og jafnvel taka við flóttamönnum í lotum. 

„Við vitum nokkurn veginn hvað við höfum og hvað við höfum upp á að bjóða fyrir flóttafólk sem er að koma úr erfiðum aðstæðum, og í sjálfu sér er ekkert sem mælir á móti því að það séu tvö, jafnvel þrjú eða fleiri verkefni í gangi hverju sinni.“

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra segir að skýrt hafi komið fram hjá sér og forystumönnum ríkisstjórnarinnar að það verði tekið við fleiri en 50 flóttamönnum.

„Við eigum núna bara í samtali við sveitarfélögin. Það voru 25 sveitarfélög, síðast þegar ég tékkaði, sem höfðu stigið formlega fram og óskað eftir viðræðum við okkur um móttöku á flóttamönnum. Við höfum séð það núna að Samband íslenskra sveitarfélaga, stjórnin þar, hefur boðist til þess að aðstoða sveitarfélögin í þeim viðræðum,“ segir Eygló.

Fjármálaráðherra sagði fyrir ríkisstjórnarfund í morgun að það væri ekki tímabært að tjá sig um fjárveitingar til sveitarfélaganna. Fréttastofa hefur óskað eftir viðtali við forsætisráðherra í dag.