Ríflega tveggja vetra nautkálfur frá Breiðabóli á Svalbarðsströnd var vel yfir hálft tonn að þyngd þegar hann var leiddur til slátrunar hjá Norðlenska á dögunum. Þyngri gripur hefur ekki áður farið yfir móðuna miklu þar nyrðra.
Boli vó 553 kíló og hakkkétið af honum myndi duga í um 3.000 hamborgara, segir á heimasíðu Norðlenska. Sjálfur át hann aðallega hey, en korni er bætt í fóðrið á Breiðabóli síðustu mánuðina fyrir slátrun.
Þess má geta að sá ágæti Guttormur, sem gladdi gesti Húsdýragarðsins í Reykjavík, var 942 kíló þegar hann var þyngstur árið 2001. Hann var hins vegar grafinn í gæludýragrafreit í Kjósinni.
Sigurður Sverrisson slátrari hjá Norðlenska á Akureyri við hlið nautsskrokksins. Mynd: Norðlenska.