Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þunguðum stúlkum bjargað frá mansalshring

01.10.2019 - 02:14
epa04615725 Motorists drive on a motorway in Lagos, Nigeria, 11 February 2015. Nigeria is Africa's most populous country and the continents fast growing economy.  EPA/AHMED JALLANZO
Lagos, höfuðborg Nígeríu. Mynd: EPA
Nítján þunguðum táningsstúlkum og konum var bjargað úr prísund mansalshrings í Nígeríu. Lögreglan segir að staðið hafi til að selja börnin þegar þau fæddust. Fórnarlömb mansalshringsins voru á aldrinum 15 til 28 ára.

Konurnar fundust á nokkrum mismunandi stöðum í Lagos, fjölmennustu borg Nígeríu. Auk kvennanna voru fjögur börn leyst úr prísundinni. Talið er að það hafi átt að selja börnin, og vinna rannsakendur að því að komast að því hvaðan börnin komu.

CNN fréttastofan hefur eftir talsmanni lögreglu að tvær konur hafi verið handteknar vegna málsins. Þær eru grunaðar um að hafa selt börn fórnarlamba mansalshringsins. Rannsakendur leita nú höfuðpaursins. 
Konurnar og táningsstúlkurnar koma víða að af landinu. Sumar þeirra sögðu lögreglu að þeim hafi verið rænt, en aðrar að þær hafi verið lokkaðar til borgarinnar með loforði um starf. 

Lögregla sagði fórnarlömbin verða send til mansalsdeildar yfirvalda þar sem þau hljóta aðhlynningu. Yfirvöld uppræta reglulega barnamansalshringi. Í fyrra björguðu yfirvöld yfir 160 börnum úr nokkrum ólöglegum munaðarleysingjaheimilum í Lagos.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV