Í sýningunni vinnur Arna með textíl og innsetningar í bleikum og mjúkum litum. Í sýningarskrá sýningarinnar segir: Kórallituð, laxableik, spítalableik, föl, rjóð, sæt, kokteilsósa, rós, dögun, rökkur, ástin, sólarupprás, sólsetur; Arna litar orðin. Mjúkir og mildir bleikir tónar dofna og skerpast í verkunum og kalla fram hlýjar myndir: húðfellingar, pinnamat, blíða snertingu, hráleika, innvortis, útvortis, lyf, nostalgíu, örvun – allt unaðslega bleikt.
Gestir Lestarklefans, þau Auður Jónsdóttir rithöfundur, Brynhildur Karlsdóttir tónlistarkona og Kjartan Guðmundsson fjölmiðlamaður kíktu á sýningu Örnu og ræddu hana við Guðna Tómasson.
„Einhvern veginn var skynjunin svo opin þegar ég fór á sýninguna. Þetta er eins og að koma inn og það er sagt við þig: „Þú bara mátt vera mjög viðkvæmur og bleikur.“ Það eru svo margar pælingar þarna. Maður horfir á þetta og verður pínu melankólískur,“ segir Auður Jónsdótttir.