Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Þú mátt vera mjög viðkvæmur og bleikur“

Mynd: RÚV / RÚV

„Þú mátt vera mjög viðkvæmur og bleikur“

20.04.2019 - 15:32

Höfundar

„Ég fór inn þarna frekar melankólísk með flensu og ég fór bara næstum að gráta,“ segir Auður Jónsdóttir rithöfundur um sýninguna Allt fínt eftir Örnu Óttarsdóttur sem nú er í Nýlistasafninu.

Í sýningunni vinnur Arna með textíl og innsetningar í bleikum og mjúkum litum. Í sýningarskrá sýningarinnar segir: Kórallituð, laxableik, spítalableik, föl, rjóð, sæt, kokteilsósa, rós, dögun, rökkur, ástin, sólarupprás, sólsetur; Arna litar orðin. Mjúkir og mildir bleikir tónar dofna og skerpast í verkunum og kalla fram hlýjar myndir: húðfellingar, pinnamat, blíða snertingu, hráleika, innvortis, útvortis, lyf, nostalgíu, örvun – allt unaðslega bleikt. 

Gestir Lestarklefans, þau Auður Jónsdóttir rithöfundur, Brynhildur Karlsdóttir tónlistarkona og Kjartan Guðmundsson fjölmiðlamaður kíktu á sýningu Örnu og ræddu hana við Guðna Tómasson.

„Einhvern veginn var skynjunin svo opin þegar ég fór á sýninguna. Þetta er eins og að koma inn og það er sagt við þig: „Þú bara mátt vera mjög viðkvæmur og bleikur.“ Það eru svo margar pælingar þarna. Maður horfir á þetta og verður pínu melankólískur,“ segir Auður Jónsdótttir.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Brynhildur og Auður voru hrifnar af sýningu Örnu.

Brynhildur var líka hrifin af sýningunni. „Þetta hafði mikil áhrif á mig og  sýningin talar vel inn í samtímann. Fyrir nokkrum árum heyrði ég lag með hljómsveitinni Eva um að það megi leggja sig á daginn og í laginu er sagt að þó hún klökkni þegar hún segir eitthvað mikilvægt á samt að taka mark á henni. Þetta var algjört „aha“ móment fyrir mig sem hef eytt miklum tíma í að reyna að vera sterk og ákveðin svo það sé hægt að taka mark á mér. Þetta var eins og að stíga inn í viðkvæmnina og fá að vera þar.“

Kjartan fór að velta fyrir sér á sýningunni hvort listamaðurinn væri aðeins að stríða áhorfendum. „Mér fannst sýningin flott. Það sem mér fannst flottast var að taka hluti sem eru gerðir eins og í hugsunarleysi eins og að krota á blað á meðan maður er í símanum eða krota á innkaupalista og færa það í vefnaðinn. Það er það sem ég tók eftir og hugsaði mest um. Mér fannst hún jafnvel stundum vera að gera smá grín að okkur. Það er einhver húmor í því að taka hlut eins og innkaupalista og færa hann í alla þessa vinnu sem er á bak við vefnaðinn.“

Lestarklefinn er umræðuþáttur um menningu og listir sem sýndur er í beinni á Menningarvef RÚV á hverjum föstudegi klukkan 17.03 og útvarpað á Rás 1.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Þetta er hennar saga

Popptónlist

Þarf rapp meiri athygli?

Menningarefni

Lestarklefinn – Arna, Stelpa og Músíktilraunir

Popptónlist

„Þetta er allt sama lagið“