Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Þú leitar líka að mér

Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Hljómsveitin HINEMOA flytur lagið Þú leitar líka að mér, hljómsveitin samanstendur af Ástu Björg Björgvinsdóttur, Rakel Pálsdóttur, Sindra Magnússyni, Kristófer Nökkva Sigurðssyni, Gísla Páli Karlssyni og Regínu Lilju Magnúsdóttur.

Hinemoa er ný hljómsveit sem stofnuð var um mitt ár 2014. Hún hefur verið ötul við að spila og má lýsa tónlistinni sem dýnamísku folk krútti með smá tvisti

Flytjandi og lagahöfundur:


Fullt nafn: Ásta Björg Björgvinsdóttir Spilar á gítar og syngur ásamt Rakel. (í hljómsveitinni spila ég einnig á Ukulele)

Aldur: 29 ára

Fyrri störf í tónlistinni: Þegar ég var þriggja ára gaf afi minn mér píanó og síðan hef ég í raun verið hugfangin af því að spila tónlist. Ég var í klassísku píanónámi í mörg ár en byrjaði í jazzsöng og píanónámi í tónlistarskóla FÍH fyrir þremur árum . Hef verið að syngja og spila hér og þar síðan, m.a. í hljómsveitunum Solar, Amanda Maara band o.fl. Ég hef samið lög síðan ég man eftir mér en ekkertlátið frá mér fara fyrr en þegar ég bjó á Nýja Sjálandi 2011-2012. Stærsta verkefnið til þessa var Söngvakeppnin í fyrra þegar við vorum með lagið Eftir eitt lag.

Hver er forsaga lagsins: Ég hef verið heilluð af suðuramerískri tónlist síðan ég bjó í Ríó í Brasilíu árið 2012 og einn morguninn eftir að ég kom heim fæddist þetta lag. Þá reyndar með alveg rosalega niðurdrepandi enskum texta. Við ætluðum nú ekki að senda neitt inn í keppnina í ár en eftir umræðuna um konur í tónlist sem spratt út frá mögulegum kynjakvóta í keppninni ákvað ég að slá til fyrst ég var með þetta lag tilbúið og ekki búin að gera neitt meira við það. Ég sendi Beggu það og hún snaraði fram texta, henti honum reyndar og skellti í annan rétt áður en skilafresturinn rann út, ég tók hann upp og við sendum inn.

Var lagið samið fyrir Eurovision/Söngvakeppnina: Nei það var nú ekki samið sérstaklega fyrir þessa keppni, meira af einhverjum söknuði eftir suðrænu loftslagi og hlýjum sólardögum. Aftur á móti finnst mér lagið passa mjög vel í keppnina.

Flytjendur úr hljómsveitinni HINEMOA:

Fullt nafn: Gísli Páll Karlsson. – Spilar á slagverk og syngur bakraddir

Aldur: 23 ára.

Fyrri störf í tónlistinni: Byrjaði ungur að spila í Kópavoginum, stundaði nám við FÍH og hef sungið og spilað víða seinustu ár.

 

Fullt nafn: Kristófer Nökkvi Sigurðsson  - Spilar á slagverk

 Aldur: 25 ára.

Fyrri störf í tónlistinni: Byrjaði að æfa á trommur 12 ára vegna þess að mig langaði að verða eins og pabbi. Fór í tónlistarskóla EGS og þaðan í FÍH. Hef spilað nánast allar tegundir tónlistar hingað og þangað um Ísland.

 

Fullt nafn: Regína Lilja Magnúsdóttir – Spilar á trompet og syngur bakraddir

Aldur: 25 ára

Fyrri störf í tónlistinni: Byrjaði að syngja í hárburstann þegar ég var lítil og var með söngatriði í öllum fjölskylduboðum. Lærði á trompet í Tónlistarskóla Hveragerðis og fór svo í jazzsöngnám í FÍH. Í dag syng ég í jazzbandi sem heitir Músak og finnst agalega skemmtilegt að syngja og gleðja fólk.

 

Fullt nafn: Rakel Pálsdóttir  – Spilar á charrango og syngur ásamt Ástu Björg. (í hljómsveitinni sjálfri spilar Rakel á gítar).

Aldur: 26 ára.

Fyrri störf: Þroskaþjálfi og tónlistarkona. Tónlistarferillinn hófst þegar ég sigraði Söngkeppni Samfés 2004. Stuttu eftir það skráði ég mig í söngnám við tónlistarskólann á Akranesi sem stóð stutt. Ég hóf nám við Tónlistarskóla FÍH árið 2011 að læra jazzsöng og er þar enn, nú einnig í kennaradeild skólans.

 

Fullt nafn: Sindri Magnússon – spilar á bassa.

Aldur: 24 og hálfs

Fyrri störf í tónlistinni: Ég hef spilað tónlist í um 10 ár, tekið upp og starfað með fjölmörgum hljómsveitum, s.s. Bangoura band, Blágresi, Kaleo, Vigri, Murrk, Hljómsveitinni Eggjandi o.fl. Lærði á kontrabassa í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og er í námi við Tónlistarskóla FÍH.    

 

Textahöfundur:

Fullt nafn: Bergrún Íris Sævarsdóttir 

Aldur: 29 ára 

Fyrri störf í tónlist: Spilaði á saxófón í mörg ár í Skólahljómsveit Kópavogs. Að öðru leyti lítið í tónlist fyrir utan einn og einn lagatexta en samdi fyrsta „alvöru“ textann við Eftir eitt lag í fyrra.

Hver er forsaga lagsins: Ég ætlaði mér alls ekki að senda inn texta þetta árið en þegar Ásta hringdi og sagðist vera með „rassadillilag“ var forvitni mín vakin. Hún kom í heimsókn og texti byrjaði að fæðast. Þeim texta var svo hent eins og hann lagði sig nokkrum dögum fyrir skil þegar andinn kom loks almennilega yfir mig og nýr, miklu hressari texti, varð til.

Var lagið samið fyrir Eurovision/Söngvakeppnina: Nei - en textinn var saminn þegar ákvörðun hafði verið tekið um að senda þetta lag inn.

 

Þú leitar líka að mér

Að bryggju bátinn ber.

Ég brosi með sjálfri mér.

Nú kviknar von, um að þú sért þar.

Ég klæði mig í kjól og háa hælaskó.

Í kvöld ætla ég að finna þig.

 

Og þó, ég hafi þig víst aldrei séð,

ég veit, þú leitar lík'að mér.

Og þó, ég hafi reynt og reynt,

ég verð að reyna einu sinni enn...

 

Og þó, ég hafi þig víst aldrei séð

ég veit, þú leitar lík'að mér.

Og þóóó, ég hafi reynt og reynt

ég verð að reyna einu sinni enn...

 

Hef fjölda froska kysst

enginn þeirra reyndist prins.

Hvar eru ævintýra- endalokin mín?

Hver veit hvað bíður mín?

Kemst ég þá loks til þín?

Svo margar spurningar hafa engin svör.

 

Og þó, ég hafi þig víst aldrei séð,

ég veit, þú leitar lík'að mér.

Og þóóó, ég hafi reynt og reynt,

ég verð að reyna einu sinni enn...

 

Og þó, ég hafi þig víst aldrei séð,

ég veit, þú leitar lík'að mér.

Og þóóó, ég hafi reynt og reynt,

ég skal reyn’ einu sinni enn...