Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Þú getur skúrað seinna væna

Mynd: Edda Jónsdóttir / Edda Jónsdóttir
Edda Jónsdóttir og Sigrún Stefánsdóttir voru að senda frá sér bókina Frú ráðherra. Þar eru viðtöl við konur sem hafa gengt ráðherraembætti og tilefnið er auðvitað 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.

Edda, Sigrún og Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi ráðherra, heimsóttu Bergsson og Blöndal á Rás 2 í tilefni útgáfunnar.

Sagan er ekki sönn

Valgerður er ein þeirra sem segir af reynslu sinni í bókinni. Hún rifjaði upp fræga sögu af fyrsta þingflokksfundinum árið 1984 en þar segir að þegar Valgerður mætti hafi þingflokksformaðurinn litið upp og sagt: „Þú getur skúrað seinna væna“.

Valgerður hló og sagði að sagan væri vissulega góð en hún væri nú víst ekki sönn. Að vísu hafði hún verið sein fyrir vegna frestunar á flugi en Valgerður sagði að henni hefði verið ágætlega tekið. Raunar hefur Páll Pétursson talað um að hann sé sár yfir þessari sögu, enda var hann formaður þingflokksins á þeim tíma.

Fæðingarorlof var stórmál

Sigrún, Valgerður og Edda ræddu vítt og breytt um bókina og eru þeirrar skoðunar að við séum að mjakast í rétta átt en ef til vill aðeins of hægt. Valgerður telur hugrekki margra kvenna í ýmsum flokkum hafa aukist við Kvennaframboðið á níunda áratugnum og Sigrún minntist á orð Ingibjargar Bjarnason, sem talaði um að konur yrðu fyrir „hnjaski“ ef þær færu fram í stjórnmálin.

Rætt var um fæðingarorlof ráðherra en Katrín Jakobsdóttir var fyrst kvenna sem tók slíkt orlof. „Hún þurfti að berjast fyrir því. Það var í raun sjálfsagt að hún fengi fæðingarorlof en það var ekki fordæmi fyrir því,“ segir Edda, en á þeim tíma hafði aðeins einn karl tekið fæðingarorlof á Alþingi.

felix's picture
Felix Bergsson
dagskrárgerðarmaður