Edda, Sigrún og Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi ráðherra, heimsóttu Bergsson og Blöndal á Rás 2 í tilefni útgáfunnar.
Sagan er ekki sönn
Valgerður er ein þeirra sem segir af reynslu sinni í bókinni. Hún rifjaði upp fræga sögu af fyrsta þingflokksfundinum árið 1984 en þar segir að þegar Valgerður mætti hafi þingflokksformaðurinn litið upp og sagt: „Þú getur skúrað seinna væna“.
Valgerður hló og sagði að sagan væri vissulega góð en hún væri nú víst ekki sönn. Að vísu hafði hún verið sein fyrir vegna frestunar á flugi en Valgerður sagði að henni hefði verið ágætlega tekið. Raunar hefur Páll Pétursson talað um að hann sé sár yfir þessari sögu, enda var hann formaður þingflokksins á þeim tíma.
Fæðingarorlof var stórmál
Sigrún, Valgerður og Edda ræddu vítt og breytt um bókina og eru þeirrar skoðunar að við séum að mjakast í rétta átt en ef til vill aðeins of hægt. Valgerður telur hugrekki margra kvenna í ýmsum flokkum hafa aukist við Kvennaframboðið á níunda áratugnum og Sigrún minntist á orð Ingibjargar Bjarnason, sem talaði um að konur yrðu fyrir „hnjaski“ ef þær færu fram í stjórnmálin.
Rætt var um fæðingarorlof ráðherra en Katrín Jakobsdóttir var fyrst kvenna sem tók slíkt orlof. „Hún þurfti að berjast fyrir því. Það var í raun sjálfsagt að hún fengi fæðingarorlof en það var ekki fordæmi fyrir því,“ segir Edda, en á þeim tíma hafði aðeins einn karl tekið fæðingarorlof á Alþingi.