Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Þrýstingur á Trump um að draga sig í hlé eykst

epa05211709 Republican presidential candidate Donald Trump speaks at a town hall at the Tampa Convention Center in Tampa, Florida, USA, 14 March 2016. The winner-take-all Florida presidential primary is on 15 March 2016  EPA/JIM LO SCALZO  EPA/JIM LO
 Mynd: EPA - EPA
Fjöldi málsmetandi Repúblíkana hafa lýst því yfir í dag að þeir vilji að Donald Trump, forsetaframbjóðandi flokksins, dragi í hlé og láti verkefnið í hendurnar á Mike Pence, varaforsetaefni sínu. Trump segist sjálfur aldrei ætla að gefast upp en erfitt er að sjá hvort og þá hvernig honum tekst að snúa sig út úr þessum vandræðum.

Fréttin hefur verið uppfærð

Bandarískir fjölmiðlar hafa síðasta sólarhringinn nánast eingöngu fjallað um myndbandsupptökuna sem Washington Post birti í gærkvöld. Þar ræðir Trump við þáttastjórnandann Billy Bush, sem er frændi tveggja fyrrverandi Bandaríkjaforseta (George Bush og George W. Bush), um hvernig hann kemur fram við konur. 

Mynd: Wikipedia / Wikipedia
Donald Trump segir á upptökunni að maður eigi að grípa konur í klofið og að frægir karlmenn komist upp með nánast hvaða hegðun sem er gagnvart konum.

Þrátt fyrir að Trump hafi áður komið sér í fréttirnar með ummælum sínum virðast þau sem birtust í Access Hollywood vera kornið sem fyllti mælinn. Paul Ryan, leiðtogi flokksins í fulltrúadeildinni, tilkynnti formlega í gærkvöld að forsetaframbjóðandinn væri ekki lengur velkominn á hefðbundinn og virðulegan fjáröflunarkvöldverð Repúblíkana í Wisconsin - ummælin hans fylltu hann viðbjóð.  Þetta var þungt högg fyrir Trump því þetta átti að vera í fyrsta skipti sem hann og Ryan tækju báðir þátt í opinberri samkomu. Til að bæta gráu ofan á svart fór myndband af Robert De Niro, þar sem hann kallar Trump öllum illum nöfnum, á flug í netheimum.

Mjög hefur fækkað í stuðningsliði Trumps eftir að upptakan úr Access Hollywood leit dagsins ljós. Mike Pence, varaforsetaefni hans, hefur lýst því yfir að ummælin séu óverjanleg.  Kappræðurnar á sunnudag væru tækifæri fyrir Trump til að sýna sinn innri mann.  Meira að segja Melanie Trump, eiginkona hans, hefur fordæmt ummælin - ekki sé hægt að verja þau. Hún vonar þó að fólk taki afsökunarbeiðni hans gilda.

Trump hafði áður en upptakan var birt gert sér mat úr hjónabandi Hillary og Bill Clinton og hvernig forsetinn fyrrverandi væri sá stjórnmálamaður sem hefði áreitt flestar konur.  Hann hét því meðal annars í nýlegu viðtali við New York Times að þetta málefni yrði jafnvel enn fyrirferðameira í kosningabaráttu sinni en áður.

Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Meira að segja Mike Pence, varaforsetaefni Trumps, segist ekki geta varið ummæli hans.

Trump sendi fyrst frá sér stutta yfirlýsingu í gærkvöld sem birtist á vefsíðu hans. Þar baðst hann afsökunar ef orð hans hefðu sært einhvern. „Bill Clinton hefur sagt mun verri hluti við mig.“ Í herbúðum Trumps virðast menn þó hafa áttað sig á því að sú yfirlýsing myndi ekki nægja til að lægja öldurnar.  Þannig að sent var út myndband þar sem Trump baðst aftur afsökunar og sagðist vera orðinn betri maður í dag.

Mynd: EBU / EBU
„Ég er orðinn betri maður í dag,“ sagði Trump í yfirlýsingu sinni.

En þessi iðrun hans virðist hafa komið að litlu gagni ef marka má umfjöllun New York Times og Washington Post. Fjöldi kjörinna fulltrúa Repúblíkanaflokksins hafa hvatt hann til að stíga til hliðar. Nú síðast John McCain, mikill áhrifamaður innan flokksins og fyrrverandi forsetaefni hans. McCain segist í yfirlýsingu að vegna karlagrobbs um ofbeldi gegn konum geti hann og eiginkona hans ekki lengur kosið Donald Trump. Þau ætli þó ekki að kjósa Hillary Clinton heldur skrifa niður nafn Repúblíkana sem þau telja hæfan til að verða forseta.

Mike Lee, þingmaður frá Utah, bað Trump um að víkja í myndbandi sem hann birti á Facebook-síðu sinni.  Meðal annarra kjörinna fulltrúa frá Utah, sem er eitt helsta vígi Repúblíkana, sem hafa hvatt Trump til að hætta eru ríkisstjórinn Gary Herbert og fulltrúadeildaþingmaðurinn Jason Chaffetz. „Hann ætti að eyða sinni orku í að ráðast gegn Clinton í stað þess að veitast að mér. Þetta er bara í nösunum á honum,“ sagði Trump um þessa ákvörðun þingmannsins.

Í Alabama, sem þykir fremur íhaldssamt fylki, hafa kjörnir fulltrúar flokksins lýst því yfir að þeir ætli ekki að kjósa Trump.  „Hegðun hans hefur gert hann óhæfan til að vera forsetaframbjóðandi og ég mun ekki greiða honum atkvæði mitt,“ hefur New York Times eftir Mörthu Roby, þingmanni fylkisins.   

Mynd með færslu
 Mynd: EPA

Þá hefur Arnold Schwarzenegger, fyrrverandi ríkisstjóri Kaliforníu, lýst því yfir að hann geti ekki stutt Donald Trump. Það verði þá í fyrsta skipti síðan hann varð bandarísku ríkisborgari sem hann muni ekki kjósa Repúblíkanaflokkinn. 

Ekki virðist þó neitt farasnið á Trump - hann segist aldrei gefast upp og ætli ekki að fara byrja á því núna. Nú sé hann bara að undirbúa sig fyrir kappræðurnar á sunnudagskvöld gegn Hillary Clinton. „Fjölmiðlar og embættismannakerfið vilja að ég hætti. Ég mun aldrei hætta. Ég mun aldrei bregðast stuðningsmönnum mínum.“