Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Þrýst á aðra kosti en kjötafurðir“

17.08.2018 - 19:41
Alþjóðlegt sprotafyrirtæki hyggst hefja þörungaræktun í Hellisheiðarvirkjun. Aðstandandi verkefnisins sér fram á að þörungarnir geti nýst sem fæða í framtíðinni.

Orka náttúrunnar skrifaði undir 15 ára samning við sprotafyrirtækið Algaennovation um sölu á aðföngum og lóð við Hellisheiðarvirkjun fyrir þörungaræktun.

„Kostnaðurinn fyrir okkur af þessum samningi minnir mig að hafi verið 150 milljónir sem að greiðast upp á samningstímanum,“ segir Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri ON. 

Er einhver áhætta fólgin í þessu verkefni? „Það er alltaf áhætta að semja við einhvern, þetta er nýsköpun, þetta er nýtt, það er óvissa í því,“ segir Bjarni. 

Smáþörungar eru örplöntur í sjó. Í náttúrunni eru þeir uppspretta næringarefna fyrir menn og dýr. 

„Þau ætla að byrja á því að selja vöruna í seiðaeldi, svo hægt og rólega ætla þau að taka mögulega að taka þetta áfram yfir í fiskeldi, svo mögulega líka í dýraeldi og manneldi,“ segir Berglind Rán Ólafsdóttir, forstöðumaður fyrirtækjamarkaða ON.

Frumkvöðull í verkefninu segir að þörungarnir geti verið fæða fyrir mannfólk. 

„Eins og ástandi er í heiminum í dag þá er mjög þrýst á aðra kosti en kjötafurðir. Það að snæða þörunga-hamborgara þýðir ekki að tennurnar verði grænar. Það þýðir einfaldlega að líta beri á þörunga sem lífefna-framleiðslu; þörungarnir eru meðhöndlaðir og unnið úr þeim prótín, þeir gerðir gómsætir og með góðan ilm og fyrir augað. Ekki að borða þörungana beint heldur nýta þá í fóður framtíðarinnar,“ segir Isaac Berzin, frumkvöðull að baki Algaennovation.

 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV