Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þrumur og eldingar: Fólk varað við að vera úti

21.02.2019 - 19:18
Mynd:  / 
Miklar þrumur og eldingar eru nú yfir suðvestanverðu landinu. Um 250 kílómetra langur skúragarður liggur frá norðanverðu Snæfellsnesi og að Vestmannaeyjum og veldur hann eldingunum.

Töluverðar þrumur og eldingar hafa verið yfir sunnanverðu landinu í dag en nú hafa þær færst yfir höfuðborgarsvæði og nágrenni og Reykjanesið.

Veðurstofan hvetur fólk til að vera ekki úti við þar sem mjög hættulegt er að verða fyrir eldingu. Enginn ætti að vera núna ofan í útisundlaugum eða heitum pottum. Ástandið varir næstu einn til tvo klukkutímana. 

Eftirfarandi leiðbeiningar um eldingaveður má finna á vef Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra

- Forðist vatn, hæðir í landslagi og berangur.

- Forðist alla málmhluti svo sem, raflínur, girðingar, vélar, tæki o.s.frv.  Haldið ykkur fjarri stórum trjám. Forðist að vera í nánd við loftlínur, hávaxin tré, staura, þvottasnúrur, rafmagnsvirki, möstur og landbúnaðartæki hvers konar.  Varist jafnframt mýrlendi, vötn og læki.

- Losið ykkur við bakpoka, byssur, veiðistangir, garðyrkjuáhöld og annað það sem leitt getur rafmagn.

- Leitið skjóls, ef unnt er, í stærri byggingum eða yfirbyggðu ökutæki úr málmi.  Hafið glugga lokaða.

- Ef grunur leikur á að eldingu slái niður nærri ykkur og þið náið ekki að komast í skjól, ættuð þið að: Krjúpa niður, beygja ykkur fram og styðja höndum á hnén. Leggist ekki flöt. Haldið ykkur í allt að 5 metra fjarlægð frá þeim sem eru með ykkur úti í eldingaveðri.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir