Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þróuðu hátæknibúnað fyrir blinda

31.01.2019 - 09:25
Mynd: Anton Brink RÚV / RÚV Anton Brink
Verkefni sem felur í sér þróun á tæknibúnaði til að hjálpa blindum og sjónskertum að skynja umhverfi sitt, Sound of vision, hlaut á dögunum fyrstu verðlaun í nýsköpunarkeppni framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Verkefnið er alþjóðlegt og er stjórnað af Háskóla Íslands.

Hvíti stafurinn er í dag helsta hjálpartæki blindra. „Hvíti stafurinn skynjar i rauninni bara sirka einn metra fyrir framan einstakling og niðri á jörðinni. Það sem við vildum gera með þessu er að veita blindum möguleika til að sjá lengra og hærra og hluti sem eru í höfuðhæð,“ segir Rúnar Unnþórsson, prófessor í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Markmiðið hafi einnig verið að blindir geti skipulagt sig þegar þeir eru á ferðinni, það sé erfitt þegar fólk viti aðeins hvað er í eins metra fjarlægð en ekki lengra.

Búnaðurinn samanstendur af höfuðbúnaði og belti. Í höfuðbúnaðinum eru þrívíddarmyndavélar sem skanna umhverfið og miðla upplýsingunum til fólks með hljóði. Í beltinu, sem fólk hefur um mittið, eru titrarar sem gefa sömuleiðis upplýsingar. Ákveðið var að hafa titring en ekki aðeins hljóð þar sem eldra fólk sé oft farið að tapa heyrn. Fólk getur svo valið hvort það sé með bæði á sér. Rúnar segir að höfuðbúnaðurinn sé nokkuð umfangsmikill í dag en að komnar séu á markað smærri myndavélar. Hann sér fyrir sér að í framtíðinni verði til dæmis hægt að koma höfuðbúnaðinum fyrir í derhúfu.

Aðstandendur verkefnisins fengu blinda og sjónskerta til að prufa búnaðinn þegar verið var að þróa hann og kom fólkið með ýmsar ábendingar. Rúnar segir lykilatriði að sjónskertum líki við lausnina. Búnaðurinn er ekki kominn á markað. Rúnar segir að næstu skref séu að fara með hann í vöruþróun. Hægt sé að framleiða einfalda útgáfu af búnaðinum, stofna fyrirtæki og koma honum á markað. Það hyggst hann þó ekki gera sjálfur, heldur vonar að einhver taki við keflinu.

Eins og áður sagði hlaut verkefnið á dögunum verðlaun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Það hlaut líka, á fyrri stigum, styrk frá ESB. Rúnar segir verðlaunin aðallega hafa verið viðurkenningu sem eflaust nýtist við að koma verkefninu enn frekar á framfæri.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Rúnar í spilaranum hér fyrir ofan. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir